Fótbolti

Alfreð farinn til Eupen í Belgíu

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Alfreð Finnbogason er mættur til Eupen.
Alfreð Finnbogason er mættur til Eupen. KAS Eupen

Íslenski landsliðsframherjinn Alfreð Finnbogason er genginn í raðir belgíska félagsins KAS Eupen frá Íslendingaliði Lyngby í Danmörku.

Eupen greinir frá tíðindunum á heimasíðu sinni í dag, en Andri Lucas Guðjohnsen gekk í raðir Lyngby á láni fyrr í dag og mun því að öllum líkindum taka við stöðu Alfreðs hjá félaginu.

Alfreð, sem er 34 ára gamall, gekk í raðir Lyngby í september á síðasta tímabili og átti stóran þátt í ævintýrinu er liðið bjargaði sér frá falli úr dönsku úrvalsdeildinni. Hann lék tólf deildarleiki fyrir félagið og skoraði þrjú mörk.

Atvinnumannaferill Alfreðs spannar tólf ár og er Eupen annað liðið í Belgíu sem hann leikur fyrir, en hann gekk í raðir Lokeren frá Breiðabliki árið 2011. Á ferli sínum í atvinnumennsku hefur hann einnig leikið fyrir lið á borð við Heerenven í Hollandi, Real Sociedad á Spáni, Olympiakos í Grikklandi og Augsburg í Þýskalandi.

Þá er Alfreð fimmti markahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi með 16 mörk í 67 leikjum fyrir Íslands hönd.

Hjá Eupen hittir Alfreð fyrir samherja sinn hjá íslenska landsliðinu en Guðlaugur Victor Pálsson gekk nýverið í raðir félagsins frá DC United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×