Tíska og hönnun

„Í dag finnst mér kven­legur fatnaður ekki síður vald­eflandi“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Jóna Gréta er viðmælandi vikunnar í Tískutali.
Jóna Gréta er viðmælandi vikunnar í Tískutali. Aðsend

Kvikmyndagagnrýnandinn og lífskúnstnerinn Jóna Gréta Hilmarsdóttir getur litið á hvaða áfangastað sem er sem tískusýningu þar sem þú ætlar að skilja fólk eftir agndofa. Hún segir tískuna geta verið vopn gegn fyrirmótuðum hugmyndum, sækir tískuinnblásturinn meðal annars til sjónvarpsþáttanna Beðmál í borginni og er enn þekkt af sumum sem stelpan með röndóttu húfuna. Jóna Gréta er viðmælandi vikunnar í Tískutali.

Tískutal er fastur liður á Vísi þar sem rætt er við ólíka einstaklinga um þeirra persónulega stíl og hvernig tíska nýtist þeim í daglegu lífi. Klæðaburður er sannarlega fjölbreytt listform en við fáum að skyggnast inn í ólíka fataskápa og fræðast nánar um það merkilega tjáningarform sem tíska er fyrir hverjum og einum viðmælanda.

Stemningskonan Jóna Gréta hefur gaman að tjáningarmáta tískunnar.Aðsend

Hvað finnst þér skemmtilegast við tískuna?

Tíska er ákveðið listrænt tjáningarform sem allir eru þátttakendur í meðvitað eða ómeðvitað. Fatnaður er eins konar vettvangur þar sem sköpunargleði fær alltaf að njóta sín sama hvar, hvort sem það er á ferkantaðri skrifstofu eða í listnámi. Það er ánægjulegt að fylgjast með því hvernig fólk tjáir sig á ólíkan hátt í gegnum tískuna, sumir vilja vekja athygli á sér en aðrir falla inn í hjörðina.

Tísku fylgir ákveðinn lestur, við erum dæmd út frá því hverju við klæðumst en við höfum valið. Við getum valið hvaða týpur við erum og hvaða hóp við tilheyrum. Svo eru þau sem þora að standa út og fara algjörlega út fyrir boxið, það er dásamlegt. Tíska getur þar af leiðandi verið notuð sem vopn gegn fyrirmótuðum hugmyndum.

Jóna Gréta segir tískuna geta verið notaða sem vopn gegn fyrirfram mótuðum hugmyndum.Aðsend

Hver er uppáhalds flíkin þín og af hverju?

Það eru nokkrar flíkur sem ég læt aldrei frá mér og get alltaf reitt mig á en þær eru; bomberjakki frá House of Sunny, svartir Adidas samba og lágar, svartar gallabuxur frá True Religion sem ég fann í Verzlanahöllinni á Laugavegi. 

Mikilvægasti hlutinn af dressinu eru hins vegar hringarnir mínir sem eru bæði gull- og silfurlitaðir. Ég fer aldrei út úr húsi án þeirra. Hringurinn frá Vivienne Westwood er þar í miklu uppáhaldi en hann lítur út eins og spilastokkur.

Bomberjakkinn er í miklu uppáhaldi hjá Jónu Grétu.Aðsend

Eyðirðu miklum tíma í að velja föt hverju sinni?

Ég er alls ekki morgunmanneskja þannig ef ég þarf að fara snemma í skólann eða vinnuna þá verð ég að velja dressið kvöldið áður. Annars hendi ég mér yfirleitt í eina af fyrrnefndum uppáhalds flíkum og set á mig hringina. Ef það er eitthvert tilefni, jafnvel þó það sé bara bæjarrölt, og ég hef tíma þá finnst mér gaman að dressa mig upp. Hvaða áfangastað sem er má líta á sem tískusýningu þar sem þú ætlar að skilja fólk eftir agndofa.

Jóna Gréta hefur gaman að því að dressa sig upp og fara eigin leiðir í tískunni.Aðsend

Hvernig myndirðu lýsa stílnum þínum?

Ég á mjög erfitt með að lýsa fatastílnum mínum af því hann er svo fjölbreyttur en ég reyni alltaf að vera spes og er óhrædd við að leika mér. Markmið mitt er yfirleitt að ná að vera „hallærislega-töff“.

Markmiðið hjá Jónu Grétu er oftast að verða hallærislega-töff. Aðsend

Hefur stíllinn þinn breyst mikið í gegnum tíðina og hvernig þá?

Fatastílinn minn hefur tekið miklu breytingum síðan ég byrjaði að hafa áhuga á tísku. Snemma í grunnskóla hafnaði ég öllu sem þótti kvenlegt og gekk aðeins í mjög karlægum fötum. Ég hélt að karllægu fötin myndu veita mér meira vald í þessu samfélagi en í dag finnst mér kvenlegur fatnaður ekki síður valdeflandi. 

Á miðstigi tók ég U-beygju og þegar ég hafði hugrekki til klæddist ég í gamaldags kjólum sem líktust þeim sem þjónustustúlkunnar í Jane Austen-myndunum klæddust. Kvikmyndin Amélie hafði síðan gríðarleg áhrif á mig og aðalleikkonan varð að minni tískufyrirmynd. 

Ég hélt svo áfram að sækja innblástur til Frakklands og í Kvennó voru pelsarnir aðalatriðið en þeim fylgdu oft rauð alpahúfa og varalitur.

Pelsar hafa löngum verið í uppáhaldi hjá Jónu Grétu.Aðsend

Hvaðan sækirðu innblástur í tískunni?

Það er fyrst og fremst hugrekki annarra sem veitir mér innblástur en ég get alltaf horft á Beðmál í borginni (e. Sex and the City) ef mig vantar innblástur. 

Þar eru margar tískutilraunir gerðar sem flestar slá í gegn.

Hugrekki annarra veitir Jónu mikinn innblástur sem og þættirnir Beðmál í borginni.Aðsend

Ertu með einhver boð og bönn þegar það kemur að klæðaburði?

Nei en mér finnst hjarðhegðun hjá unglingum oft leiðinlegt en um leið skiljanleg.

Jóna Gréta er ekki fyrir boð og bönn en þykir hjarðhegðun þó bæði leiðinleg og skiljanleg.Aðsend

Hver er eftirminnilegasta flík sem þú hefur klæðst og af hverju?

Það er án efa röndótta og litríka húfa mín sem ég lét ekki frá mér fyrstu árin í Austurbæjarskóla. Það lá við að ég tæki hana ekki niður í kennslustundum. 

Húfan varð eins konar einkennisklæðnaður minn og þau úr Austurbæjarskóla þekkja mig enn þá sem stelpuna með röndóttu húfuna.

Húfur hafa löngum spilað stórt hlutverk í stíl Jónu Grétu.Aðsend

Býrðu yfir einhverju góðu ráði þegar það kemur að tísku?

Svo að ég vitni í Sssól: „Vertu þú sjálfur, gerðu það sem þú vilt.“

Hér má fylgjast með Jónu Grétu á samfélagsmiðlinum Instagram


Tengdar fréttir

„Ég hef aldrei nennt að „fitta“ inn“

Lífskúnstnerinn, fótboltamaðurinn og fatahönnuðarneminn Birnir Ingason hefur alltaf farið sínar eigin leiðir í klæðaburði og hefur hreinlega gaman að því þegar fólk gerir athugasemdir við fataval sitt. Hann segist þó hafa þróast í aðra átt með árunum þar sem hann sækir nú minna í lætin og meira í þægindi og hagkvæm kaup. Birnir er viðmælandi vikunnar í Tískutali.

Fann ekki drauma­kjólinn svo hún saumaði hann sjálf

Myndlistarkonan og tískuunnandinn Aníta Björt Sigurjónsdóttir hefur verið búsett í Mílanó undanfarin ár og segir stíl sinn í stöðugri breytingu. Hún var að opna vefverslunina Mamma Mia Vintage ásamt vinkonu sinni Sigrúnu Guðnýju þar sem handvalin notuð föt frá Ítalíu eru í forgrunni en þær verða með svokallaðan „Pop Up“ viðburð á Bankastræti 12 um helgina. Aníta Björt er viðmælandi vikunnar í Tískutali.

Mikil upp­­lifun að vera upp­­stríluð á tísku­viku með ljós­­myndara á eftir sér

Grafíski hönnuðurinn Embla Óðinsdóttir elskar tísku og notar hana ítrekað til að tjá sína líðan. Embla, sem er búsett í Kaupmannahöfn, segir erfitt að velja sína uppáhalds flík þar sem nánast öll fötin hennar eru í uppáhaldi en gerði þó mögulega bestu kaup sögunnar eitt sinn á Akureyri þegar hún keypti leðurjakka og loðvesti saman á 700 krónur. Embla er viðmælandi vikunnar í Tískutali.

„Hef lært með árunum að álit annarra á mér kemur mér bara ekkert við“

Förðunarfræðingurinn Birkir Már Hafberg lýsir stílnum sínum sem tímalausum og stílhreinum en elskar þó stundum að leika sér með æpandi liti. Hann fer sínar eigin leiðir í tískunni, leggur upp úr því að klæða sig fyrir sjálfan sig og segir stíl sinn hafa þróast í einfaldari átt á undanförnum árum. Birkir Már er viðmælandi vikunnar í Tískutali.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×