Sport

Seinheppinn Tour de France keppandi lenti líka í á­rekstri á frí­deginum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Maxim Van Gils hjólar fyrir Lotto Dstny liðið og er enn með í Frakklandshjólreiðunum þrátt fyrir mörg óhöpp á síðustu dögum.
Maxim Van Gils hjólar fyrir Lotto Dstny liðið og er enn með í Frakklandshjólreiðunum þrátt fyrir mörg óhöpp á síðustu dögum. Getty/Dario Belingheri

Belgíski hjólreiðamaðurinn Maxim van Gils er búinn að taka út sinn skammt af árekstrinum í Frakklandshjólreiðunum og gott betur.

Hinn 23 ára gamli Van Gils er búinn að lenda tvívegis í keppninni sjálfri en til að bæta gráu ofan á svart þá lenti hann líka í árekstri á frídegi sínum.

Keppendur í Tour de France fengu frídag til að jafna sig eftir hörð átök upp fjallshlíðar Alpanna.

Van Gils vildi eitthvað liðka sig á hjólinu en það endaði ekki betur en svo en hann klessti á vörubíl. Hjólreiðamaðurinn var út að hjóla með föður sínum þegar vörubílinn svínaði á hann í brekku.

Það hljómar vissulega mjög illa en sem betur fer slasaðist hann ekkert alvarlega. „Það brotnaði ekkert,“ staðfesti liðslæknirinn Peter Plessers. Faðir hans Van Gils var ekki eins heppinn því hann úlnliðsbrotnaði.

„Honum er illt í öxlinni en slapp við beinbrot. Maxim vill ná að hjóla alla leið til París,“ sagði Plessers sem starfar fyrir Lotto-Dstny liðið.

Belginn hafði dottið tvisvar í keppninni, fyrst á öðrum keppnisagi á leið til San Sebastián og svo aftur á laugardaginn á fjórtándu keppnisleið.

Það hefur verið mikið um árekstra síðustu keppnisdagana í Tour de France. Það er samt fullt langt gengið þegar hjólreiðakapparnir eru ekki óhultir á frídögunum heldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×