Sport

Reyndi að taka sjálfu og olli fjöldaárekstri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Keppendur hjóluðu 179 kílómetra langa leið frá Les Gets les Portes du Soleil til Saint-Gervais Mont-Blanc.
Keppendur hjóluðu 179 kílómetra langa leið frá Les Gets les Portes du Soleil til Saint-Gervais Mont-Blanc. Michael Steele/Getty Images

Áhorfandi á Tour de France hjólreiðakeppninni varð valdur af því að um tuttugu keppendur lentu í árekstri og féllu til jarðar er hann reyndi að taka sjálfu (e. selfie) á meðan keppni stóð.

Fimmtándi leggur Tour de France fór fram í dag og var það Hollendingurinn Wout Poels sem bar sigur úr býtum. Ríkjandi meistarinn Jonas Vingegaard er þó enn með tíu sekúndna forystu á Tadej Pogacar í keppninni.

Sepp Kuss, liðsfélagi Vingegaard hjá Team Jumbo-Visma, lenti þó í heldur óheppilegu atviki þegar áhorfandi sem reyndi að taka sjálfu varð í vegi fyrir honum. Áhorfandinn rakst í stýri Kuss með þeim afleiðingum að um tuttugu keppendur féllu til jarðar.

„Það var þrenging á veginum. Áhorfandi hafði komið sér fyrir og ég er nokkuð viss um að hann hafi rekist í stýrið mitt,“ sagði Kuss eftir daginn.

„Sem betur fer er í lagi með mig og vonandi er líka í lagi með alla hina sem lentu í þessu.“

Svo virðist einmitt sem allir hafi sloppið vel úr árekstrinum því þeir kláruðu allir legg dagsins. Fimmtándi leggurinn var 179 kílómetra langur frá Les Gets les Portes du Soleil til Saint-Gervais Mont-Blanc.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×