Sport

Djoko­vic vill breyta fyrir­komu­laginu á Wimbledon

Smári Jökull Jónsson skrifar
Novak Djokovic freistar þess að vinna Wimbledon mótið þriðja árið í röð.
Novak Djokovic freistar þess að vinna Wimbledon mótið þriðja árið í röð. Vísir/Getty

Novak Djokovic hefur hvatt forsvarsmenn Wimbledon mótsins í tennis að byrja leiki á mótinu fyrr á daginn. Hann leikur í dag við Andrey Rublev í 8-manna úrslitum.

Djokovic vann sigur á Wimbledon mótinu í tennis í fyrra en hann hefur alls sjö sinnum fagnað sigri á mótinu. Hann sló út Hubert Hurkacz í 16-manna úrslitum en sá leikur spilaðist á tveimur dögum vegna reglu Wimbledon um að ekki megi spila lengur en til klukkan ellefu að kvöldi til.

Leikirnir hefjast ekki fyrr en klukkan eitt eftir hádegið og nú hefur Djokovic biðlað til mótshaldara að byrja keppni fyrr á daginn svo hægt verði að klára leikina sama dag.

„Ég held að það væri hægt að færa leikina fram til að minnsta kosti 12:00,“ sagði Djokovic sem lýsti því hvernig hann þurfti að bíða í sjö klukkustundir á sunnudag eftir að leikur hans gegn Hurkacz myndi hefjast þar sem leikirnir á undan drógust á langinn.

Annað var hins vegar uppi á teningunum þegar hefja átti leik að nýju í gær, þá lauk leiknum á undan fyrr en búist var við vegna meiðsla Beatriz Haddad Maia

„Ég held það séu til mismunandi leiðir til að takast á við þetta vandamál og koma í veg fyrir að það komi upp í framtíðinni,“ sagði Djokovic enn fremur en Hurkacz náði að klára sinn leik á sunnudag og fékk því heilan dag í hvíld í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×