Sport

Segir að meira en helmingur leik­manna deildarinnar reyki marijúana að stað­aldri

Smári Jökull Jónsson skrifar
Travis Kelce leikur með Kansas City Chiefs í NFL-deildinni.
Travis Kelce leikur með Kansas City Chiefs í NFL-deildinni. Vísir/Getty

Leikmenn NFL-deildarinnar eru duglegir að reykja marijúana. Allavega ef eitthvað er að marka orð Travis Kelce sem segir meirihluta leikmannanna nota gras að staðaldri.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan NFL-leikmaðurinn Travis Kelce var gripinn fyrir að reykja marijúana og dæmdur í leikbann. Þá var árið 2009, Kelce var í háskóla og marijúana var ólöglegt í næstum öllum fylkjum Bandaríkjanna.

Nú eru marijúanareykingar leyfðar í 23 af 50 ríkjum landsins og mjög algengar á meðal leikmanna NFL-deildarinnar. Kelce hefur verið einn af bestu innherjum deildarinnar síðustu árin og hann heldur því fram að 50-80% leikmanna deildarinnar noti marijúana að staðaldri.

Nýjar reglur hvað varðar marijúanareykingar tóku gildi í deildinni árið 2021. Nú eru leikmenn aðeins prófaðir á tveggja vikna tímabili áður en undirbúningstímabilið byrjar á sumrin.

„Svo lengi sem þú hættir um miðjan júní þá er þetta lítið mál. Margir hætta viku áður en prófin eru tekin og sleppa. Þar sem allir eru úti í hitanum og svitna á æfingum þá er enginn sem fellur í þessum prófum. Nú til dags er nánast enginn sem fær refsingu útaf þessu,“ segir Kelce í viðtali við Vanity Fair.

Áður en nýju reglurnar tóku gildi voru leikmenn, sem greindust með marijúna í lyfjaprófum, dæmdir í leikbann. Nú fá þeir hins vegar aðeins sektir. Í NBA-deildinni í körfubolta eru engin próf tekin yfirhöfuð.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×