Erlent

Ein af hverjum fimm verður ó­létt án að­stoðar eftir ó­frjó­semis­með­ferð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vísindamenn segja að konur ættu að vera meðvitaðar um að líkurnar á því að þær verði óléttar án aðstoðar eftir frjósemismeðferð séu ekki hverfandi.
Vísindamenn segja að konur ættu að vera meðvitaðar um að líkurnar á því að þær verði óléttar án aðstoðar eftir frjósemismeðferð séu ekki hverfandi. Getty

Um það bil ein af hverjum fimm konum sem fær aðstoð við að verða þunguð verður ólétt „á gamla mátann“ eftir að hafa áður reynt meðferðir á borð við glasafrjóvgun.

Þetta eru niðurstöður vísindamanna við University College London, sem segja að konur ættu að vera meðvitaðar um að „náttúrulegar“ þunganir eftir ófrjósemisferðir séu ekki jafn óvenjulegar og áður var talið.

Rannsóknin náði til fleiri en 5.000 kvenna og samkvæmt niðurstöðunum urðu í kringum 20 prósent óléttar án aðstoðar innan við þremur árum eftir að hafa fengið aðstoð.

Vísindamennirnir segja mögulegt að ófrjósemismeðferðir, til að mynda örvun eggjastokkanna, geri eggjastokkana virkari til lengri tíma. Þá má vera að hormónabúskapur þeirra sem verða óléttar í kjölfar aðstoðar og minnkað stress auki líkurnar á því að þær verði þungaðar aftur, án aðstoðar.

Konur ættu að vera meðvitaðar um þessar staðreyndir, til að geta gripið til ráðstafana.

Læknir sem Guardian ræddi við og eignaðist sjálf barn með glasafrjóvgun, varð til að mynda aftur ólétt átta mánuðum síðar, sem kom henni verulega á óvart. 

Þrátt fyrir að seinni þungunin hafi vissulega verið gleðiefni segir hún: „Ef ég hefði vitað að ein af hverjum fimm konum verða óléttar náttúrulega eftir glasafrjóvgun hefði ég notað getnaðarvörn þar til ég var tilbúin aftur, bæði andlega og líkamlega.“

Á Bretlandseyjum á um það bil eitt af hverjum sjö pörum erfitt með að verða þungað. Þá gangast fleiri en 50 þúsund undir glasafrjóvgun á ári hverju.

Hér má lesa umfjöllun Guardian.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×