Sport

Óskar þess oft að hún hefði aldrei unnið Opna banda­ríska meistara­mótið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Emma Raducanu hefur þurft að glíma við ými líkamleg og andleg vandamál síðan hún vann Opna bandaríska meistaramótið í tennis.
Emma Raducanu hefur þurft að glíma við ými líkamleg og andleg vandamál síðan hún vann Opna bandaríska meistaramótið í tennis. Tim Clayton/Corbis via Getty Images

Breska tenniskonan Emma Raducanu opnaði sig á dögunum um andlega og líkamlega efiðleika sem hún hefur þurft að glíma við síðan hún vann Opna bandaríska risamótið í tennis árið 2021.

Raducanu skaust upp á stjörnuhimininn í tennisheiminum þegar hún varð sú fyrsta í sögunni til að sigra Opna bandaríska meistaramótið eftir að hafa unnið sér inn þátttökurétt á úrtökumóti, þá aðeins 18 ára gömul.

Síðan þá hefur tennisferillinn hins vegar ekki náð jafn miklu flugi og vonast var eftir og Raducanu hefur þurft að glíma við mikil og erfið meiðsli. Hún er nú frá keppni eftir að hafa gengist undir aðgerð á úlnlið og handlegg.

„Ég hef átt í vandræðum með líkamlega hlutann, en andlegi hlutinn var eitthvað sem var líka virkilega erfitt fyrir mig,“ sagði Raducanu í samtali við The Times.

„Ég hef alltaf viljað sýna bestu útgáfuna af sjálfri mér og ég hef reynt að gera það, en ég vissi að ég gæti það ekki.“

Á leið sinni að titlinum á Opna bandaríska meistaramótinu árið 2021 tapaði Raducanu ekki einu einasta setti. Síðan þá hefur hún ekki komist lengra en í aðra umferð á risamóti og hún fór úr því að sitja í tíunda sæti heimslistans niður í 128. sæti.

„Þetta augnablik á vellinum þegar ég fagnaði því að hafa unnið Opna bandaríska hugsaði ég með mér að ég myndi ekki skipta þessari tilfinningu út fyrir neitt í heiminum,“ sagði Raducanu.

„Síðan þá hef ég gengið í gegnum ýmis áföll, eitt af öðru. Ég bý yfir mikilli þrautsegju og ég þoli margt, en þetta er ekki auðvelt. Stundum hugsa ég með sjálfri mér: „Ég vildi óska þess að ég hefði aldrei unnið Opna bandaríska. Ég vildi óska þess að það hefði aldrei gerst“,“ bætti Raducanu við að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×