Erlent

Segjast hafa endur­heimt fyrstu þorpin

Árni Sæberg skrifar
Úkraínskir hermenn koma fána sínum fyrir á húsi í Blagodatne, að eigin sögn.
Úkraínskir hermenn koma fána sínum fyrir á húsi í Blagodatne, að eigin sögn. Skjáskot

Úkraínumenn segjast hafa endurheimt þrjú þorp í Dónetsk-héraði úr höndum Rússa. Úkraínuforseti staðfesti í gær að gagnsókn úkraínska hersins væri hafin.

Þorpin sem um ræðir eru annars vegar Blagodatne og Neskuchne, en úkraínskir hermenn birtu myndbönd af frelsun þeirra í morgun, og hins vegar Makarivka, sem aðstoðarvarnarmálaráðherra Úkraínu segir hafa verið frelsað.

Hér að neðan má sjá myndskeið, sem sagt er sýna úkraínska hermenn í Neskuchne:

Vólódómír Selenskí Úkraínuforseti greindi frá því á blaðamannafundi í gær að boðuð gagnsókn Úkraínuhers væri hafin.

„Við sjáum núna fyrstu jákvæðu niðurstöðurnar í gagnsókninni, árangur á afmörkuðum svæðum,“ sagði Valeryi Shershen, talsmaður herafla Úkraínumanna á Tavria-svæðinu í suðurhluta Úkraínu, í úkraínska ríkissjónvarpinu í kvöld. Reuters greinir frá þessu.

Hanna Maliar, aðstoðarvarnarmálaráðherra Úkraínu, segir í yfirlýsingu að úkraínuher hafi náð að færa sig fram um 300 til 1.500 metra í tvær áttir á suður-víglínunni í Dónetsk. Þá hafi Rússar ekki náð neinum svæðum þar sem Úkraínumenn vörðust.

Rob Lee, bandarískur varnarmálasérfræðingur, birti kort sem sýnir víglínuna á Twitter í dag. Á myndinni eru Blagodatne og Neskuchne skyggð og efri merkipinninn sýnir Makarivka. Sá neðri sýnir Urozhaine, þar sem bardagar eru sagðir háðir þessa stundina.


Tengdar fréttir

Er gagnsókn Úkraínumanna hafin?

Úkraínumenn eru byrjaðir að gera árásir í suðausturhluta Úkraínu. Fregnir hafa borist af tiltölulega smáum árásum í Dónetsk- og Sapórisjía-héruðum og eru Úkraínumenn sagðir hafa náð einhverjum árangri. Erfitt er þó að sannreyna fregnirnar að svo stöddu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×