Innlent

Aug­lýst eftir for­ystu­hæfi­leikum og „fram­úr­skarandi sam­skipta­hæfni“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Embættistíð Aðalsteins var nokkuð róstursöm.
Embættistíð Aðalsteins var nokkuð róstursöm. Vísir/Vilhelm

Embætti ríkissáttasemjara hefur verið auglýst laust til umsóknar en meðal þeirra hæfniskrafa sem gerðar eru til umsækjenda eru forystuhæfileikar og „framúrskarandi samskiptahæfni“.

Þá er sérstök athygli vakin á því skilyrði laga um stéttarfélög og vinnudeilur að gæta skuli þess að afstaða ríkissáttasemjara sé slík að „telja megi hann óvilhallan í málum launafólks og atvinnurekenda“.

Greint var frá því fyrir helgi að Aðalsteinn Leifsson hefði óskað eftir því að láta af störfum sem ríkissáttasemjari frá 1. júní en hann var skipaður í embættið frá 1. apríl 2020. Ástráður Haraldsson héraðsdómari var settur í embættið tímabundið.

Embættistíð Aðalsteins var nokkuð róstursöm enda hörð átök á vinnumarkaðnum.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, kallaði eftir afsögn Aðalsteins eftir að hann lagði fram miðlunartillögu í deilum stéttarfélagsins við Samtök atvinnulífsins. Efling neitaði að leggja fram kjörskrá til að ganga mætti til atkvæða um tillöguna og Landsréttur staðfesti réttmæti þeirrar ákvörðunar.

„Þetta er dálítið sérstök staða, óvenjuleg staða, sem ég bjóst alls ekki við. Hún er líka fordæmalaus þannig maður veltir fyrir sér hvaða markmiðum hægt er að ná með tillögunni því eðli málsins samkvæmt er hún sett fram sem síðasta úrræði í hörðum og erfiðum kjaradeilum. En núna liggur fyrir að það er ekki hægt að framkvæma atkvæðagreiðslu um miðlunartillögu ef annar hvor aðilinn neitar að afhenda kjörgögn til þess að það geti gerst,“ sagði Aðalsteinn þegar hann ákvað að stíga til hliðar í deilunni í kjölfar dómsins.

Á atvinnuauglýsingasíðunni Alfreð.is segir að um sé að ræða stjórnunarstarf með sveigjanlegan vinnutíma og skipað er til fimm ára í senn. Kröfur eru gerðar um menntun og reynslu sem nýtist í starfi, forystuhæfileika, framúrskarandi samskiptahæfni, þekkingu á íslenskum vinnumarkaði og áhuga, skilningi og metnaði fyrir embættinu.

Umsóknarfrestur er til 19. júní næstkomandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×