Fredericia féll úr leik í undanúrslitum dönsku deildarinnar en liðið kom mörgum á óvart í úrslitakeppninni. Í kvöld mætti liðið Skjern í einvígi liðanna um bronsið og leikið var á heimavelli Skjern.
Skemmst er frá því að segja að Fredericia reið ekki feitum hesti frá leik kvöldsins. Leikurinn var reyndar jafn til að byrja með en í stöðunni 12-12 skoraði Skjern sjö mörk í röð og leiddi 19-12 í hálfleik.
Í síðari hálfleik bættu þeir enn frekar í forskotið. Þeir komust tíu mörkum yfir um miðjan hálfleikinn og unnu að lokum 34-23 sigur. Fredericia þarf því sigur í öðrum leik liðanna til að koma einvíginu í oddaleik.
Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði eitt mark fyrir Fredericia í kvöld.