Sóley átti gríðarlega góðan dag á Evrópumótinu í kraftlyftingum í búnaði í Thisted í Danmörku en hún lauk keppni áðan.
„Skemmst er frá því að segja að hún sigraði í +84 kg flokki með yfirburðum og tryggði sér þar með Evrópumeistaratitil! Sóley er 22 ára gömul og á eftir eitt ár í unglingaflokki í viðbót en keppti hér í flokki fullorðinna,“ segir í fréttatilkynningu frá Kraftlyftingasambandi Íslands.
Sóley lyfti 270 kg í hnébeygju og voru allar lyftur gildar hjá henni þar.
Í bekkpressu fóru 182,5 kg upp í annarri tilraun. Í þriðju tilraun reyndi hún við 190 kg en fékk þá lyftu dæmda ógilda þrátt fyrir að hún færi alla leið upp með tvö rauð ljós gegn einu hvítu.
Í réttstöðulyftu lyfti hún 207,5 kg og voru allar lyftur gildar hjá henni þar. Samtals 660 kg, en næsti keppandi lyfti 622,5 kg. Sóley hlaut gull í hnébeygju og bekkpressu og silfur í réttstöðu.
„Öll framganga Sóleyjar í keppninni í dag einkenndist af öryggi og yfirvegun. Við óskum Sóleyju innilega til hamingju með frábært afrek og verðskuldaðan titil! Hún er íþróttinni og landinu til sóma!“