Erlent

Minnst 55 látnir í átökum á Indlandi og 260 á sjúkrahúsi

Eiður Þór Árnason skrifar
Hópur fólks sem tilheyrir Meitei kom saman í Nýju-Delí í gær og kölluðu eftir því að ofbeldinu í Manipur myndi linna.
Hópur fólks sem tilheyrir Meitei kom saman í Nýju-Delí í gær og kölluðu eftir því að ofbeldinu í Manipur myndi linna. Hindustan Times/Vipin Kumar/Getty

Minnst 55 hafa látist í átökum í fylkinu Manipur í Indlandi og 260 til viðbótar lagðir inn á sjúkrahús eftir að átök brutust út milli Kuki og Meitei þjóðarbrotanna fyrr í þessari viku. Hóparnir hafa átt í hörðum bardögum á götum fylkishöfuðborgarinnar Imphal og sýnir myndefni svartan reyk frá bifreiðum og byggingum sem standa í ljósum logum.

CNN hefur eftir stjórnendum spítala í borginni að alvarleg skotsár séu algengust meðal sjúklinga og þá séu margir með áverka á höfði eftir að hafa verið barðir með kylfum. Hermenn hafa verið sendir út á götur borgarinnar og stjórnvöld hyggjast loka fyrir netaðgang íbúa á svæðinu í fimm daga.

Vilja fá viðurkenningu stjórnvalda

Átökin milli þjóðarbrotanna hófust á þriðjudag þegar þúsundir mótmæltu því að til greina kæmi að Meitei þjóðarbrotið, sem samanstendur af tæpum meirihluta íbúa í Manipur, yrði viðurkennt sem formlegur ættflokkur af indverskum stjórnvöldum samkvæmt skilgreiningu stjórnarskrár.

Fulltrúar Meitei hafa í fjölda ára barist fyrir því að hljóta þessa skilgreiningu á þeim grundvelli að hún myndi meðal annars veita þeim aukinn aðgang að heilbrigðisþjónustu, tækifærum í menntun og opinberum störfum.

Andstæðingar óttast að það verði erfiðara fyrir fólk sem tilheyri öðrum ættflokkum að fá störf og annan stuðning ef Meitei þjóðarbrotið hlýtur þessa viðurkenningu stjórnvalda.

Ættflokkar á borð við Meitei hafa þurft að þola margskonar mismunun í Indlandi í gegnum tíðina sem hefur skilað sér í lakari efnahags- og þjóðfélagslegri stöðu. Hefur þeim til að mynda reglulega verið neitað um menntun og atvinnutækifæri. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×