Innlent

Tveimur fjall­göngu­mönnum bjargað á Hamra­garða­heiði

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Þyrla Landhelgisgæslunnar kom slasaða manninum til bjargar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar kom slasaða manninum til bjargar. Landsbjörg

Tveir lentu í hremmingum í nótt þar sem þeir voru að klífa Fagrafell á Hamragarðaheiði við Eyjafjallajökul. Í tilkynningu frá Landsbjörg segir að annar maðurinn hafi fallið niður fellið nokkurn spöl og við það endaði hinn í sjálfheldu og komst ekki niður til félaga síns.

Björgunarsveitir af Suðurlandi voru boðaðar á hæsta forgangi í verkefnið, og var fyrsta björgunarfólk komið á slysstað um klukkan 02:20.

Jón Þór Víglundsson Upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir að slysið hafi orðið í miklu brattlendi og að erfitt hafi verið fyrir björgunarfólk að komast að slysstað og að þeim sem var fyrir ofan hann í sjálfheldu.

„Undanfarar, sérhæfðir í fjallabjörgun, frá höfuðborgarsvæði voru kallaðir út ásamt því að óskað var eftir þyrlu frá Landhelgisgæslu í verkefnið sökum þess að erfitt var að komast að þeim sem var í sjálfheldu,“ segir ennfremur og bætt við að tryggja hafi þurft björgunarfólk á svæðinu með siglínum og færa þann sem slasaðist, svo öruggara væri að komast að þeim sem var fastur ofar í hlíðinni.

Landsbjörg

„Fljótlega varð ljóst að einfaldast væri að komast að þeim sem var í sjálfheldu úr þyrlu, og þegar þyrla kom á svæðið, sem var austur á Egilstöðum, var sá sóttur, og síðan sá slasaði hífður um borð í þyrlu. Björgunarfólk er nú að ganga frá á slysstað og halda niður af fjallinu,“ segir að lokum. 

Jón Þór  segir að mennirnir hafi verið þrekaðir og kaldir og að annar þeirra hafi verið nokkuð slasaður.

Landsbjörg


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.