Sport

Ís­land á 25 prósent af topp sex­tán lista stelpnanna: Björg­vin Karl í öðru

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Björgvin Karl Guðmundsson og Þuríður Erla Helgadóttir náðum bestum árangri íslenska CrossFit fólksins í fjórðungsúrslitum undankeppni heimsleikanna.
Björgvin Karl Guðmundsson og Þuríður Erla Helgadóttir náðum bestum árangri íslenska CrossFit fólksins í fjórðungsúrslitum undankeppni heimsleikanna. Samsett/@bk_gudmundsson og @thurihelgadottir

Fjórar íslenska CrossFit konur voru meðal þeirra sextán efstu í fjórðungsúrslitum undankeppni heimsleikanna i CrossFit. Björgvin Karl Guðmundsson var eini íslenski karlinn sem komst áfram.

Fjórðungsúrslitin fóru fram um helgina og reyndu vel á keppendur en aðeins tíu prósent af keppendum úr The Open unnu sér þátttökurétt þar.

CrossFit samtökin eru nú búin að taka saman úrslitin úr greinunum fimm í þessum öðrum hluta af þremur sem keppendur þurfa að komast í gegnum til að tryggja sér sæti á heimsleikunum í haust.

Björgvin Karl Guðmundsson náði bestum árangri Íslendinga í fjórðungsúrslitunum en hann varð í öðru sæti í Evrópukeppni karla. BKG var fyrst með jafnmörg stig og Victor Hoffer frá Frakklandi en eftir leiðréttingu þá vann hann Frakkann með einu stigi. Björgvin Karl var aftur á móti 25 stigum á eftir sigurvegaranum sem var Fabian Beneito frá Spáni.

Björgvin Karl var eini íslenski karlinn sem náði að tryggja sig áfram í undanúrslitin en íslenska CrossFit fólkið fer í gegnum Evrópukeppnina á leið sinni á heimsleikanna. Ingimar Jónsson var næstefstur íslenska karla en hann varð í 243. sæti.

Fjórar íslenskar konur voru hins vegar meðal þeirra þrjátíu sem komast inn á undanúrslitamótin. Ísland á því 25 prósent af af topp sextán listanum og það þótt að Katrín Tanja Davíðsdóttir keppi ekki fyrir Ísland á þessu tímabili.

Ísland á langflestar konur inn á topp sextán eða tvöfalt fleiri en Noregur og Svíþjóð sem áttu tvær konur hvor þjóð.

Þrjár þeirra voru inn á topp tíu en það voru Þuríður Erla Helgadóttir, Anníe Mist Þórisdóttir og Sara Sigmundsdóttir. Allt miklir reynsluboltar þegar kemur að því að keppa á heimsleikunum.

Þuríður Erla varð efst af þeim eða í fimmta sæti en Anníe varð sjöunda og Sara níunda. Anníe náði sjöunda sætinu þrátt fyrir að hafa gert sér lífið mun erfiðara á lokadeginum þegar hún þurfti að endurtaka mjög krefjandi æfingu.

Sólveig Sigurðardóttir, varð efstu íslensku stelpnanna í opna hlutanum en endaði í sextánda sæti í Evrópu í fjórðungsúrslitunum. Hún var aftur á móti örugg inn í næsta hluta eins og hinar þrjár.

Katrín Tanja komst líka áfram en það gerði hún með því að ná tuttugasta sæti í Vesturhluta Norður-Ameríkukeppninnar.

  • Þjóðir sem áttu konur inn á topp sextán í fjórðungsúrslitum:

  • 4 konur  - Ísland (5. sæti, 7. sæti, 9. sæti, 16. sæti)
  • 2 - Noregur (8, 13)
  • 2 - Svíþjóð (3, 14)
  • 1 - Pólland (1)
  • 1 - Ungverjaland (2)
  • 1 - Belgía (4)
  • 1 - Spánn (6)
  • 1 - Ítalía (10)
  • 1 - Frakkland (11)
  • 1 - Sviss (15)
  • 1 - Slóvakía (12)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×