Innlent

Lík­kistu­sala dóms­mála­ráð­herra ekki í hags­muna­skráningu hans

Kjartan Kjartansson skrifar
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, á og rekur fyrirtækið Mar textil sem flytur inn og selur líkkistur.
Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, á og rekur fyrirtækið Mar textil sem flytur inn og selur líkkistur. Vísir/Getty/samsett

Ekki kemur fram í hagsmunaskráningu Jóns Gunnarssonar, dómsmálaráðherra, að hann sé eigandi fyrirtækis sem flytur inn og selur líkkistur. Þingkona Pírata spurði ráðherrann út í fyrirtækið í tengslum við ákvörðun hans varðandi rekstur á bálstofu.

Uppfært: Fyrirtækið var á hagsmunaskrá Jóns árið 2021 en ekki liggur fyrir hvernig það datt þaðan út. Það var einnig á hagsmunaskrá hans á vef Stjórnarráðsins þegar hún var sett inn í maí í fyrra.

Einkahlutafélagið Mar Textil í Kópavogi er í eigu dómsmálaráðherra og eiginkonu hans. Í hagsmunaskrá sinni segist Jón þó ekki ekki reka neina tekjumyndandi starfsemi samhliða starfi sínu sem alþingismanns. Eignar hans í félaginu er heldur ekki getið.

Arndís A.K. Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Jón út í fyrirtækið í óundirbúinni fyrirspurn á Alþingi í morgun. Það gerði hún í tengslum við fréttir um óánægju félagsins Trés lífsins með að dómsmálaráðuneytið væri í viðræðum við Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma um að halda áfram rekstur þeirra á bálstofu. Tré lífsins falast eftir því að reka bálstofu óháðri trúabrögðum.

Benti Arndís á að Tré lífsins sjái fyrir sér að kaup á stórum og dýrum líkkistum verði óþörf ólíkt því sem er í dag verði hugmyndir þess að veruleika. Spurði hún Jón út í Mar textil sem hann væri skráður forráðamaður fyrir.

Ekki leyndarmál

Jón sagði það rétt að þau hjónin hefðu staðið í rekstri frá 1985 og að það flytti inn líkkistur. Hann minnti að hann væri skráður hundrað prósent eigandi félagsins þó að þau hjónin hefðu staðið að rekstrinum saman.

Það væri málefnum bálstofunnar óviðkomandi. Af um tvö hundruð milljón króna veltu væru líkkistur um tuttugu milljónir.

„Það eru engin leyndarmál í kringum þennan rekstur af minni hálfu,“ sagði ráðherrann sem útskýrði þó ekki hvers vegna félagsins væri ekki getið í hagsmunaskrá hans.

Þingmönnum ber að skrá launuð störf, stjórnarsetu eða rekstur sem er tekjumyndandi fyrir hann samkvæmt fjórðu grein reglna um hagsmunaskráningu þingmanna. Þeim ber einnig að skrá heiti félags sem þeir eiga hlut í ef hlutrinn nemur meira en fjórðungi hluta- eða stofnfjár þess.

Geti útilokað samkeppnisaðila

Björn Leví Gunnarsson, flokksbróðir Arndísar, gagnrýndi að hagsmunir Jóns væru ekki skráðir opinberlega í ljósi þess að ráðuneyti hans undirbyggi nú ákvörðun um framtíðartilhögun bálfara. Ráðherrann geti útilokað samkeppnisaðila með ákvörðun í málinu.

„Það er eins og þau kunni ekki á það hvað hagsmunaárekstur er,“ skrifaði Björn Leví í færslu á Facebook.

Datt út af skránni

Jón Gunnarsson hefur svarað færslu Björns þar sem hann segir að fyrirtækið hafi verið skráð á hagsmunaskrá hans en það hafi einhverra hluta vegna dottið þaðan út fyrir mistök. Sé hagsmunaskráin skoðuð í Way Back Machine, þar sem gamlar útgáfur vefsíða eru vistaðar, sést að fyrirtækið var á skránni í apríl 2021.

Í svarinu segir Jón að hann hafi verið á þingi frá 2007 og fyrirtækið hafi verið skráð á hagsmunaskránna síðan þá.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×