Ferlíkin fundust með James Webb-geimsjónaukanum, stærsta og öflugasta geimsjónauka sögunnar sem tekinn var í notkun í fyrra. Þau eru svo fjarlæg að þegar ljósið lagði af stað frá þeim var alheimurinn innan við 600 milljón ára gamall, aðeins um fjögur prósent af núverandi aldri sínum.
Vetrarbrautarefnin eru ekki þau elstu sem Webb hefur fundið. Stærð þeirra og hversu fullmótuð þau eru kom vísindamönnunum hins vegar í opna skjöldu, að sögn AP-fréttastofunnar.
Ivo Labbe, aðalhöfundur greinar um rannsóknina frá Swinburne-tækniháskólanum í Ástralíu, segir að teymi hans hafi átt von á að finna smágerðar vetrarbrautir með ungum stjörnum svo skömmu eftir upphaf alheimsins, ekki flikki á borð við þessi með hlutfallslega gömlum stjörnum.
„Á meðan flestar vetrarbrautir á þessu tímabili séu lítil og vaxi hægt með tímanum eru nokkur skrímsli á hraðferð til mótunar. Það er ekki vitað hvers vegna eða hvernig,“ segir hann.
Töldu að þau hefðu gert mistök
Fyrirbærin sex eru öll milljörðunum sinnum massameiri en sólin okkar, eitt þeirra allt að hundrað milljónum sinnum þyngra. Þau eru jafnframt gríðarlega þétt. Í þeim eru um það bil jafnmargar stjörnur og í Vetrarbrautinni okkar en á mun minna svæði.
Labbe segir að teymið hafi verið vantrúað í upphafi. Það hafi ekki haft neina trú á að vetrarbrautir á stærð við Vetrarbrautina okkar gætu hafa þróast svo snemma í sögu alheimsins. Sumir vísindamannana töldu að þeir hefðu gert mistök.
Kollegi hans Joel Leja frá Pennsylvaníuháskóla í Bandaríkjunum segir að uppgötvunin storki viðteknum kenningum um hvernig alheimurinn leit út á fyrstu hundrað milljónum áranna eftir Miklahvell.
„Þetta skapar vafa um heildarmynd okkar af myndun fyrstu vetrarbrautanna,“ segir hann.
Enn á eftir að staðfesta uppgötvunina með litrófsgreiningu. Vísindamennirnir láta sér því nægja að kalla fyrirbærin mögulegar vetrarbrautir í bili. Leja segir mögulega að einhver fyrirbæranna gætu reynst dulin risasvarthol. Góðar líkur séu þó á að einhver þeirra reynist stórar vetrarbrautir.