Sport

Conor sakaður um að hafa beitt konu ofbeldi í afmæli sínu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Conor McGregor hefur ekki barist í tæp tvö ár.
Conor McGregor hefur ekki barist í tæp tvö ár. getty/Brian Lawless

Írski bardagakappinn Conor McGregor er til rannsóknar hjá lögreglunni á Ibiza á Spáni en hann er sakaður um að hafa ráðist á konu í 34 ára afmælisfögnuði sínum í fyrra. Samkvæmt talskonu Conors hafnar hann öllum ásökunum konunnar.

Að sögn konunnar þekktust þau Conor, enda úr sama hverfi í Dublin. Hann bauð henni í afmælið sitt á Ibiza í júlí í fyrra.

Afmælið færðist yfir á snekkju Conors og þá breyttist hegðun hans samkvæmt skýrslu konunnar til lögreglunnar í Dublin. Hann sparkaði í hana og kýldi og á svo að hafa hótað að drekkja henni. Til að forðast Conor stökk konan af snekkjunni og í sjóinn. Fólk frá Rauða krossinum náði svo í hana.

„Það var eins og hann væri andsetinn. Ég vissi að ég þyrfti að komast af bátnum því ég hélt hann myndi drepa mig,“ sagði konan við írsku lögregluna.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Conor er sakaður um ofbeldi gegn konum. Fyrir fjórum árum var greint frá því að hann væri til rannsóknar eftir að kona sakaði hann um kynferðisofbeldi. Kæran var síðan felld niður og málið fór ekki lengra.

Þá réðist Conor á eldri mann á írskum bar 2019 og sama ár var hann handtekinn fyrir að brjóta síma manns.

MMAFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.