Lífið

Hildur Guðna ekki tilnefnd til Óskarsverðlauna

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Hildur Guðnadóttir var fyrsti Íslendingurinn til þess að vinna Óskarsverðlaunin.
Hildur Guðnadóttir var fyrsti Íslendingurinn til þess að vinna Óskarsverðlaunin. Getty/Kevin Winter

Hildur Guðnadóttir er ekki tilnefnd til Óskarsverðlaunanna í ár. Hún átti möguleika á tilnefningu fyrir tónlistina í kvikmyndinni Women Talking.

Í síðasta mánuði var tilkynnt að Women Talking væri ein af þeim tíu myndum sem ætti möguleika á tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir bestu frumsömdu kvikmyndatónlistina. Um tíma var talið líklegt að Hildur yrði tilnefnd fyrir tónlist úr tveimur myndum, Women Talking og Tár. Það var þó gert ljóst að hún gæti ekki verið tilnefnd tvisvar í sama flokknum.

Tilnefningarnar voru tilkynntar rétt í þessu og er Hildur ekki tilnefnd í þetta skiptið.

Það er tónlistin í kvikmyndunum All Quiet On The Western Front, Babylon, The Banshees Of Inisherin, Everything Everywhere All At Once og The Fablemans sem hlaut tilnefningu.

Hildur fékk Óskarsverðlaunin eftirminnilega árið 2020 fyrir tónlist í kvikmyndinni Joker. Varð hún þar með fyrsti Íslendingurinn til þess að vinna Óskarsverðlaun.

Hildur hefur sópað að sér verðlaunum síðustu ár. Fyrr í vikunni vann hún til verðlauna á Critics' Choice verðlaunahátíðinni og fyrr í mánuðinum var hún tilnefnd til Golden Globe verðlaunanna. Þá vann hún bæði Grammy verðlaunin og BAFTA verðlaunin fyrir tónlistina í kvikmyndinni Joker.


Tengdar fréttir

Hildur Guðna orðuð við Óskars­verð­laun

Kvikmyndin Tár var í dag frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum. Cate Blanchett fer með aðalhlutverk myndarinnar og samdi Hildur Guðnadóttir tónlistina. Hildur er sögð líkleg til að vinna Óskarsverðlaun fyrir myndina.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×