Innlent

Verka­­fólk á Akur­eyri með hærri laun en í Reykja­­vík

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Stefán Ólafsson segir sérstaka framfærsluuppbót nauðsynlega til þess að jafna kjörin milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis.
Stefán Ólafsson segir sérstaka framfærsluuppbót nauðsynlega til þess að jafna kjörin milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Vísir/Steingrímur Dúi

Launakjör verkafólks á Akureyri eru betri en í Reykjavík samkvæmt könnunum. Sérfræðingur hjá Eflingu segir kröfur félagsins um sérstaka framfærsluuppbót meira en sanngjarnar í ljósi hærri húsnæðiskostnaðar á höfuðborgarsvæðinu.

Efling birti frétt á heimasíðu sinni í gær með tölunum, en þær eru fengnar úr Gallup könnunum frá haustinu 2022. Þar kemur fram að verkafólk Einingar-Iðju á Akureyri fær um það bil 21 þúsund krónum meira í heildarlaun á mánuði en félagar þeirra í Eflingu. Auk þess raðar hærra hlutfall Eflingarfélaga sér í neðstu tekjuhópana.

Stefán Ólafsson hjá Eflingu segir þetta renna stoðum undir kröfur Félagsins.

„Þrátt fyrir að eflingarfélagar á höfuðborgarsvæðinu vinni nærri tveimur stundum lengur á viku þá eru heildarlaun hjá verkafólki á Akureyri 21 þúsund krónum hærri. Þetta auðvitað styður þann málflutning sem við höfum verið með um það að bæði félögin eru á sömu kjarasamningum og vinna eftir sömu launatöflu en hún skilar félögum okkar á Akureyri miklu meira. Þeir eru að raðast í hærri flokka, hærri starfsaldursþrep og fá meiri bónusa.“

Deila Eflingar og Samtaka atvinnulífsins strandar meðal annars á sérstakri framfærsluuppbót sem á að endurspegla hærri húsnæðiskostnað á höfuðborgarsvæðinu. En eru kröfurnar sanngjarnar?

„Já þær eru meira en sanngjarnar. Þær eru nauðsynlegar bara til að jafna stöðu verkafólks á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Um það snýst málið.“

Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttassemjari, hefur boðað til fundar í deilunni 24. janúar næstkomandi en það er bara formsatriði, deilan er enn í algerum hnút og mikið ber í milli.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×