Innlent

Kaldasti desember í meira en hundrað ár

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Kristín Björg Ólafsdóttir sérfræðingur í veðurfarsrannsóknum á Veðurstofunni.
Kristín Björg Ólafsdóttir sérfræðingur í veðurfarsrannsóknum á Veðurstofunni. Vísir/Sigurjón

Ríflega hundrað ára kuldamet féll í Reykjavík í desember en hann var síðast kaldari árið 1916. Veðurfræðingur segir of snemmt að segja til um hvort um sé að ræða áhrif loftslagsbreytinga en vissulega hafi verið miklar öfgar í veðri síðustu tvo mánuði.

Tilfinning margra sem búa á suðvesturhorninu reyndist rétt, desember mánuður var óvenjukaldur og það eftir hlýjasta nóvember mánuði á landsvísu frá upphafi mælinga.

„Desember mánuður var mjög óvenjulegur. Þetta er áttundi kaldasti desember á landsvísu frá upphafi mælinga. Síðast var kaldara árið 1973 og í Reykjavík hefur ekki verið kaldara frá árinu 1916,“ segir Kristín Björg Ólafsdóttir sérfræðingur í veðurfarsrannsóknum á Veðurstofu Íslands. 

Meðalhitinn í Reykjavík í desember var mínus þrjú komma níu stig. Kaldast var 30. desember þegar meðalhiti sólarhringsins mældist ellefu komma þrjú stig. Þá var frostakaflinn í Reykjavík líka óvenjulangur en meðalhiti sólarhringsins var undir frostmarki frá 7. desember og þar til í dag. Það fer þó að frysta aftur strax á morgun og varir út vikuna. 

Kristín segir að við séum þó enn langt frá kuldametinu.

„Lang kaldasti desember mánuður, bæði á landinu öllu og í Reykjavík er árið 1880 og það var alveg töluvert kaldara eða mínus 7,5 stig að jafnaði í Reykjavík,“ segir hún.

Hins vegar hafi ekki fallið met í snjóþyngslum.

„Það er ekki óvenjulega mikill snjór. Hann var bara þurr og safnaðist mikið saman í sköflum. En mánuðurinn hefur verið óvenju úrkomulítill,“ segir hún.

Hún segir of snemmt að segja til um hvort um sé að ræða áhrif vegna loftslagsbreytinga.

„Þetta hefur verið óvenjulegt undanfarin ár. Við þurfum bara að skoða það betur hvort að öfgar í veðurfari komi svona fram á Íslandi. Við getum ekki svarað til um það strax. En það er auðvitað eitthvað sem við erum að skoða,“ segir Kristín að lokum. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×