Sport

Leið íslenska CrossFit fólksins á heimsleikana 2023 liggur í gegnum Berlín

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Anníe Mist Þórisdóttir fagnar góðum árangri á CrossFit móti.
Anníe Mist Þórisdóttir fagnar góðum árangri á CrossFit móti. Mynd/Instagram/anniethorisdottir

Jólagjöfin til CrossFit áhugafólks og keppenda er að fá að vita um keppnisstaðina í mikilvægustu mótum undankeppni heimsleikanna á næsta ári.

CrossFit samtökin hafa nefnilega gefið út keppnisstaði á sjö undanúrslitamótum í baráttunni um laus sæti á heimsleikunum á næsta ári.

Eftir breytingar á undankeppni heimsleikanna er ljóst að íslenska CrossFit fólkið þarf að vinna sér inn keppnisrétt á leikunum á slíku móti. Evrópa fær eitt mót þar sem að minnsta kosti fimm karlar og fimm konur tryggja sér farseðilinn á heimsleikanna.

Mótið fyrir evrópsku keppendurna fer fram 1. til 4. júní í Berlín í Þýskalandi. Leið íslenska CrossFit fólksins á heimsleikana 2023 mun því liggja í gegnum Berlín.

Keppnin fer fram í Max Schmeling íþróttahöllinni sem er heimavöllur þýska handboltalandsliðsins Füchse Berlin.

Undanúrslitamótin minna á gamla tíma þegar íslenska fólkið tryggði sér þátttökurétt á heimsleikunum á Evrópumóti.

CrossFit samtökin hafa áður sagt frá nýjum heimslista sem mun hafa áhrif á undankeppnina.

17 af 40 sætum á heimsleikanna munu færast á milli heimshluta eftir því hversu góðum árangri fólk frá þeim hluta heimsins nær í opna hlutanum og undankeppni heimsleikanna fram að undanúrslitum.

Á sama tíma og við vitum hvar Evrópukeppnin fer fram þá fengu aðrir heimshlutar einnig að vita um keppnisstaði sína.

Undanúrslitin munu ná yfir þrjár vikur frá 18. maí til 4. júní.

Fyrstu keppnirnar fara fram í Orlando á Flórída (Austurkeppni Norður-Ameríku) og í Jóhannesborg í Suður Afríku (Afríka).

Í viku tvö verður keppt í Pasadena í Kaliforníu (Vesturkeppni Norður-Ameríku), í Brisbane í Ástralíu (Eyjaálfa) og Ríó í Brasolíu (Suður-Ameríka).

Evrópukeppnin í Berlín er síðan í síðustu vikunni ásamt Asíukeppnin sem fer fram í Busan í Suður-Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×