„Gaslýsing“ (e. gaslighting) sker sig úr frá fyrri orðum ársins að því leyti að uppfletningar á því voru ekki bundnar við einstakan viðburð heldur var því flett upp jafnt og þétt allt árið.
„Þetta er orð sem hefur risið svo hratt í enskri tungu, og sérstaklega síðustu fjögur árin, að það kom mér og mörgum öðrum raunverulega á óvart. Þetta var orð sem var flett upp oft á hverjum einasta degi ársins,“ segir Peter Sokolowski, ritstjóri Merriam-Webster sem heldur úti rafrænni orðabók, í viðtali við AP-fréttastofuna.
Merriam-Webster skilgreinir gaslýsingu sem sálfræðilegri stjórnun á manneskju, venjulega yfir langan tíma, sem veldur því að „fórnarlambið fer að efast um réttmæti eigin hugsana, skynjun sína á raunveruleiknanum eða minningum og leiðir vanalega til ruglings og missis á sjálfstrausti og sjálfsímynd, óöryggis um eigin tilfinningar eða geðrænan stöðugleika og til þess að verða háður gerandanum.“
Makar í ofbeldissamböndum, nánir ættingjar, stjórnmálamenn og fulltrúar stórfyrirtækja eru á meðal þeirra sem hafa verið sakaðir um að gaslýsa fólk á árinu.
Dimmdi gasljósin
Uppruna hugtaksins má rekja til leikritsins „Gasljóss“ eftir Patrick Hamilton frá árinu 1938. Tvær kvikmyndir voru gerðar eftir leikritinu á fimmta áratug síðustu aldar, þar á meðal ein með Ingrid Bergman. Verkið fjallar um hvernig eiginmaður beitir konu sína andlegu ofbeldi, meðal annars með því að dimma gasljós á heimili þeirra og telja henni trú um að hún það sé ímyndun hennar.
Leit að orðin jókst nokkuð eftir dauða Angelu Lansbury í október en hún fór með aukahlutverk í annarri kvikmyndinni.
Orð ársins hjá Merriam-Webster er ekki valið af geðþótta heldur á grundvelli gagna úr orðabók fyrirtækisins á netinu. Hástökkvarar á listanum verða fyrir valinu eftir að algengustu leitarorðin hafa verið sigtuð frá.
Á meðal annarra vinsælustu orðanna í ár voru „ólígarki“ eftir innrás Rússa í Úkraínu, „omíkron“ vegna afbrigðis kórónuveirunnar og „eiginkona konungs“ sem er titill Camillu Parker-Bowles, konu Karls Bretakonungs.