Sport

„Eigum fullt inni og við munum spila betur gegn þeim í Þýskalandi“

Andri Már Eggertsson skrifar
Stiven Tobar Valencia gerði 6 mörk í kvöld.
Stiven Tobar Valencia gerði 6 mörk í kvöld. Vísir/Vilhelm

Fyrsta tap Vals í Evrópudeildinni kom gegn Flensburg í kvöld. Þýsku risarnir spiluðu betur í seinni hálfleik sem skilaði fimm marka sigri 32-37. Stiven Tobar Valencia var svekktur eftir leik.

„Ég var mjög spenntur að spila þennan leik á stóra sviðinu. Þetta var leikur sem maður undir bjó sig vel fyrir og það var mikil stemmning í leiknum og læti í húsinu,“ sagði Stiven Tobar Valencia eftir leik.

Stiven Tobar var allt í öllu í leiknum en Stiven var gagnrýninn á sjálfan sig og hefði viljað sjá betri varnarleik.

„Mér fannst ég hefði átt að gera betur í kvöld. Vörnin var ekki nógu góð eins og við vitum þá er Flensburg mjög gott lið og mögulega betra lið en við en hvað með það. Við áttum fullt inni.“

„Við slitnuðum aðeins í vörninni í seinni hálfleik. Þeir fóru að finna línuna og við vorum að fá mikið af tveggja mínútna brottvísunum og mér fannst þeir ekki vera að fá eins margar brottvísanir og við. Dómgæslan var ekki með okkur í kvöld og það getur skipt máli í lok leiks. 

Stiven Tobar var brattur þegar hann var spurður út í framhaldið þar sem hann var nokkuð sáttur með marga hluti í leiknum.

„Við vorum alveg í rassgatinu á þeim þar til vörnin fór að slitna um miðjan seinni hálfleik. Við eigum fullt inni og við munum mæta betur til leiks í næsta leik á móti þeim í Þýskalandi,“ sagði Stiven Tobar Valencia að lokum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×