Erlent

Bandaríkjamenn segja krónprinsinn njóta friðhelgis sem forsætisráðherra

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Krónprinsinn er sagður fara með allt vald í Sádi Arabíu og virðist því sjálfur hafa komið sér undan ábyrgð með því að taka sér embætti forsætisráðherra.
Krónprinsinn er sagður fara með allt vald í Sádi Arabíu og virðist því sjálfur hafa komið sér undan ábyrgð með því að taka sér embætti forsætisráðherra. Nordic Photos/AFP

Bandarísk stjórnvöld segja ótækt að kæra Mohammed bin Salman, krónprins Sádi Arabíu, í tengslum við morðið á blaðamanninum Jamal Khashoggi, þar sem hann var nýlega gerður forsætisráðherra landsins og nýtur þar með friðhelgi sem æðsti ráðamaður ríkisstjórnar.

Þetta kemur fram í greinargerð bandaríska dómsmálaráðuneytisins vegna einkamáls sem Hatice Cengiz, unnusta Khashoggi, og samtökin Dawn hafa höfðað vegna morðsins á blaðamanninum.

Það var dómarinn í málinu, John Bates, sem kallaði eftir áliti stjórnvalda á því hvort hægt væri að höfða mál gegn krónprinsinum en álitið hefur verið harðlega gagnrýnt, ekki síst vegna þess að Joe Biden Bandaríkjaforseti hét því á sínum tíma að gera allt sem í sínu valdi stæði til að láta MBS, eins og hann er gjarnan kallaður, sæta ábyrgð.

Sarah Leah Whitson, framkvæmdastjóri Dawn, sem voru stofnuð af Khashoggi, segir að bandarískum stjórnvöldum hefði verið í lófa lagt að hafna því að leggja fram greinargerð í málinu og að það væri kaldhæðnislegt að stjórn Biden hefði nú tryggt að krónprinsinn myndi aldrei sæta ábyrgð fyrir morðið.

Lögspekingar segja að það hafi legið ljóst fyrir að jafnvel þótt stjórnvöld ættu ekki aðkomu að málinu myndi afstaða þeirra til mögulegrar friðhelgi krónprinsins ráða úrslitum um þróun mála. Nú sé einsýnt að því verði vísað frá og síðasti möguleikinn á því að láta MBS axla ábyrgð úr sögunni.

Ákvörðun stjórnvalda þykir meðal annars áhugaverð í ljósi þess að fyrir aðeins um mánuði síðan sagði Biden að Sádi Arabar myndu gjalda fyrir það að hafa samþykkt að draga úr olíuframleiðslu á vettvangi OPEC.

Khashoggi var pyntaður og myrtur af útsendurum frá Sádi Arabíu í sendiráði landsins í Istanbul árið 2018.

Hér má finna ítarlega umfjöllun Guardian um nýjustu vendingar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×