Sport

Reykti einn pakka af sígarettum á meðan hann kláraði maraþonhlaup

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chen frændi kveikti sér reglulega í rettu á leiðinni.
Chen frændi kveikti sér reglulega í rettu á leiðinni. Twitter

Það reynir mikið á lungun að hlaupa heilt maraþonhlaup og góð byrjun í að undirbúa sig fyrir slík hlaup er að reykja ekki. Það er þó einn maður sem hlustar ekkert á svoleiðis ráð.

Þess vegna hefur fimmtugur kínverskur maraþonhlaupari vakið mikla athygli á samfélagsmiðlinum Weibo í heimalandinu.

Chen frændi, eins og hann er kallaður, kláraði nefnilega Xin’anjiang maraþonhlaupið í Jiande á þremur klukkutímum og 28 mínútum.

Það sem gerði afrek hans enn eftirtektarverða var að á meðan hann hljóp maraþonhlaupið þá kláraði hann heilan pakka af sígarettum.

Vanalega eru tuttugu sígarettur í pakkanum og það þykir mikið að reykja einn pakka á dag.

Hvað þá að klára pakkann á innan við fjórum klukkutímum á meðan þú hleypur 42 kílómetra eða eins og að hlaupa frá Smáralind í Kópavogi til Keflavíkur.

Það fylgir sögunni að Chen er bakgarðshlaupari og er því vanur að hlaupa miklu lengur en þessa 42 kílómetra sem þarf að klára í maraþonhlaupi.

Reykjandi maraþonhlauparinn hefur vissulega fengið mikla athygli í netheimum og flestir skilja ekki hvernig þetta sé hægt.

Það mætti kannski semja við kappann að fá að skoða þessi lungu hans á rannsóknarstofu þegar hann fellur frá.

Þetta er auðvitað ekkert sem á skilið hrós eða hetjuljóma og það er nokkuð öruggt að þó að hjarta Chen frænda er í góðum gír þá eru lungun hans líklega eins og hjá 140 ára gömlum manni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×