Innlent

Bein útsending: Gefa áfallastjórnun stjórnvalda háa einkunn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á einum af fjölmörgum fundum í heimsfaraldri kórónuveiru. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í bakgrunni.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á einum af fjölmörgum fundum í heimsfaraldri kórónuveiru. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í bakgrunni. Vísir/Vilhelm

Nefnd sem skipuð var til að greina áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda í Covid-19 faraldrinum hefur skilað forsætisráðherra skýrslu sinni og var hún rædd á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Nefndin mun kynna skýrsluna í málstofu í Norræna húsinu kl. 14.30 í dag.

Að neðan má sjá streymi úr Norræna húsinu.

Í nefndinni sátu þau Ásthildur Elva Bernharðsdóttir, dósent við Háskólann á Bifröst sem var formaður, Guðný Björk Eydal, prófessor við Háskóla Íslands og Trausti Fannar Valsson, dósent við Háskóla Íslands. Helstu niðurstöður nefndarinnar eru þær að áfallastjórnun stjórnvalda hafi í heild sinni gengið afar vel.

„Hér voru dauðsföll af völdum faraldursins færri en víðast gerðist, þátttaka í bólusetningum afar góð, í gegnum faraldurinn treystu landsmenn yfirvöldum og ríkisstjórninni mjög vel til að grípa til viðeigandi aðgerða og þríeykið naut sérstaks trausts þjóðarinnar. Almannvarnakerfið, í samvinnu við íslenskt sóttvarnakerfi, var þanið til hins ýtrasta en stóðst prófið með miklum ágætum. Hvar sem borið er niður í greiningu blasir við mikið og óeigingjarnt vinnuframlag, mikil einbeiting og samstaða,“ segir meðal annars í skýrslunni.

Nefndin setur einnig fram fjölda ábendinga sem ættu að geta nýst stjórnvöldum til að meta úrbætur í löggjöf, skipulagi og verklagi. Forsætisráðuneytið mun í samstarfi við önnur ráðuneyti fara yfir ábendingar og úrbótatækifæri sem fram koma í skýrslunni. Í framhaldi af því verður á vettvangi Stjórnarráðsins unnin samræmd aðgerðaáætlun og í samstarfi við sveitarfélög.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×