Sport

NFL-dómarar báðu leik­mann um eigin­handar­á­ritun eftir leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mike Evans gefur ungum aðdáenda eiginhandaráritun sína.
Mike Evans gefur ungum aðdáenda eiginhandaráritun sína. Getty/Eakin Howard

Tveir dómarar í leik Tampa Bay Buccaneers og Carolina Panthers um helgina náðust á myndband þar sem þeir báðu stjörnuútherja Buccaneers liðsins um eiginhandaráritun eftir leik.

NFL deildin ætlar að skoða þetta mál betur enda mjög vafasöm framkoma hjá dómurunum tveimur.

Leikmaðurinn sem um ræðir er útherjinn Mike Evans sem átti þó engan stjörnuleik ekki frekar en liðsfélagar hans því Bucs liðið tapaði leiknum á vandræðalegan hátt 21-3.

Einhver á vegum 1340 AM Fox Sports náði því á myndband þegar dómararnir Jeff Lamberth og Tripp Sutter kalla á Evans í leikmannagöngunum og biðja hann um eiginhandaráritun.

Þetta er 21. tímabilið hjá Lamberth en það fjórða hjá Sutter.

Samkvæmt reglum NFL deildarinnar þá mega dómarar ekki biðja leikmenn, þjálfara eða starfsmenn liða um eiginhandaráritun enda dregur það hlutleysi dómaranna í efa.

Dómarar geta aðeins fengið eiginhandaráritun séu þeir að safna pening fyrir gott málefni en þá aðeins með því að leggja fram formlega beiðni til deildarinnar og þar mega þeir alls ekki biðja leikmenn um slíkt í eigin persónu þrátt fyrir að málefnið sé mikilvægt.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×