Innlent

Telur ó­lík­legt að höfuð­paurarnir sleppi mikið betur í Lands­rétti

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Margrét Valdimarsdóttir, doktor í afbrotafræði og lektor í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri.
Margrét Valdimarsdóttir, doktor í afbrotafræði og lektor í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri. Vísir/Vilhelm

Afbrotafræðingur telur ólíklegt að þungir dómar höfuðpaura í sögulegu fíkniefnamáli verði mildaðir að ráði. Þá telur hún ekki ástæðu til að rýmka refsirammann, þó að umfang og tíðni fíkniefnabrota færist í aukana. Næstum tvöfalt fleiri fíkniefnabrot hafa verið skráð á Keflavíkurflugvelli það sem af er ári en allt árið í fyrra.

Tveir voru dæmdir í tólf ára fangelsi í Saltdreifaramálinu svokallaða í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Málinu hefur verið lýst sem einu umfangsmesta fíkniefnamáli Íslandssögunnar.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur 12 ára refsiramminn einu sinni áður verið fullnýttur í fíkniefnamáli. Það var árið 2002 þegar Austurríkismaðurinn Kurt Fellner var dæmdur í 12 ára fangelsi í héraðsdómi fyrir innflutning á næstum 70 þúsund e-töflum.

Dómurinn yfir Fellner var þó mildaður í níu ár - og sú virðist einmitt almennt reglan í þungum fíkniefnadómum síðustu ára. Saltdreifaradómum verður áfryjað - og Margrét Valdimarsdóttir afbrotafræðingur telur að hann verði mildaður í Landsrétti.

„Það kæmi mér ekki á óvart. Mér þykir þó ekki líklegt að aðalhöfuðpaurarnir, að þeir dómar verði mildaðir að einhverju ráði.“





Málið er sögulegt að umfangi og þá er einmitt rannsókn nýlokið í öðru máli, stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar. Þetta eru mál sem opnað hafa markaðinn fyrir aðra og ljóst er að lögregla hefur áhyggjur; í nýbirtri skýrslu ríkislögreglustjóra kemur fram mikil aukning á tilraunum til fíkniefnainnflutnings um Keflavíkurflugvöll. Það sem af er þessu ári eru skráð 107 brot en voru 63 allt árið í fyrra.

Væri ef til vill tilefni til að rýmka refsirammann í ljósi þessa?

„Dómar í fíkniefnamálum á Íslandi eru hlutfallslega þungir í samnburði við aðra brotaflokka og í samanburði við það sem er að gerast í öðrum löndum. Og það er ekki endilega skýrt að þynging refsinga muni leiða til þess að við sjáum færri brot. Þannig að, ekki endilega,“ segir Margrét.


Tengdar fréttir

Dómar í salt­dreifara­málinu þyngstu dómar sem fallið hafa í fík­niefna­máli

Þyngstu dómar sem fallið hafa í fíkniefnamáli hér á landi féllu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Það voru tveir sakborningar í Saltdreifaramálinu svokallaða sem hlutu dómana, sem hljóða upp á tólf ára fangelsi. Þrír aðrir voru dæmdir í fangelsi og verjendur hafa þegar ákveðið að áfrýja dómnum.

Þungir dómar í salt­dreifara­máli

Sakborningar í Saltdreifaramálinu svokallaða fengu þyngstu mögulegu refsingu í Héraðsdómi Reykjavíkur þegar dómur í málinu var kveðinn upp í dag. Tveir hlutu tólf ára fangelsi sem er þyngsti dómur sem fallið hefur í fíkniefnamáli hér á landi. Refsiramminn var því verið fullnýttur.

Notuðu hesta­mennsku sem yfirvarp fyrir kanna­bis­ræktun

Fjórir karlmenn eru ákærðir fyrir mjög umfangsmikla kannabisræktun á bóndabæ á Suðurlandi. Samkvæmt vitnisburði lögreglunnar átti húsráðandi, sem ekkert vit hafði á kannabisræktun, samskipti við annan höfuðpaur ræktunarinnar með hestamennskudulmáli.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×