Sport

„Eyddi öllum leikhléunum í að fara yfir hvernig við dripplum gegn pressu“

Andri Már Eggertsson skrifar
Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals, var svekktur með þriggja stiga tap 
Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals, var svekktur með þriggja stiga tap  Vísir/Bára Dröfn

Valur tapaði á heimavelli fyrir toppliði Keflavíkur. Leikurinn var spennandi undir lokin en Keflavík vann 75-77. Ólafur Jónas Sigurðsson, þjálfari Vals, var svekktur eftir leik. 

„Mér fannst þriggja stiga tap rétt niðurstaða miðað við hvernig leikurinn þróaðist. Mér fannst við gera nokkur mistök á báðum endum vallarins. Alltaf þegar við töpuðum boltanum þá refsaði Keflavík í hvert einasta skipti,“ sagði Ólafur Jónas eftir leik og hélt áfram.

„Ef maður gerir smá mistök þá refsar Keflavík og ég hefði viljað refsa Keflavík meira fyrir þeirra mistök en það hafðist ekki. Mér fannst við samt spila vel þar sem við tókum fleiri fráköst sem var markmið fyrir leik en það vantaði herslumuninn.“ 

Keflavík hefur spilað góðan varnarleik á tímabilinu þar sem Keflavík pressar hátt og fannst Ólafi mismunandi hvernig Valur leysti varnarleik Keflavíkur í leiknum.

„Á köflum leystum við vörn Keflavíkur illa og á köflum náðum við að leysa varnarleikinn vel. Ég hefði viljað leysa vörn Keflavíkur í hvert einasta skipti og hefðum við alltaf spilað eins þá hefðum við farið létt með það en við vorum að flækja hlutina og ég eyddi öllum leikhléunum í að fara yfir hvernig við dripplum á móti pressu.“

Ólafur var ánægður með spilamennsku Val undir lokin þar sem Valur gafst ekki upp heldur gerði allt til að fara með leikinn í framlengingu og mátti ekki miklu muna að svo færi.

„Þetta var hörkuleikur og þetta hefði getað dottið báðu megin en mistökin drápu okkur í kvöld,“ sagði Ólafur Jónas Sigurðsson að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×