Sport

Keppa um heims­meistara­titil í beinni út­sendingu úr Elliða­ár­dal

Tinni Sveinsson skrifar
Mari Jaersk og aðrir íslenskir keppendur hittust til að taka æfingahlaup í brautinni í Elliðaárdal á dögunum.
Mari Jaersk og aðrir íslenskir keppendur hittust til að taka æfingahlaup í brautinni í Elliðaárdal á dögunum. Gummi St.

Næstu helgi keppa fimmtán ofurhlauparar fyrir Íslands hönd í bakgarðshlaupi í Elliðaárdal. Ræst verður á sama tíma í þrjátíu og sjö löndum og hlaupið hring eftir hring þar til aðeins einn hlaupari stendur eftir. Hlaupið verður í beinni útsendingu hér á Vísi.

Hlaupið út um allan heim

Bakgarðhlaupin hafa vakið mikla athygli hér á landi en nokkur mót hafa verið haldin síðustu misseri. Með þeim vann Ísland sér inn þátttökurétt á heimsmeistaramóti landsliða í greininni sem fram fer um næstu helgi. Hlaupið verður samtímis í 37 löndum víða um heim.

Vísir verður með beina útsendingu á meðan á keppni stendur. Útsendingin hefst klukkan ellefu á laugardag, klukkutíma áður en hlaupararnir eru ræstir af stað, og stendur allt þar til síðasti Íslendingurinn hefur lokið keppni. Búast má við því að það verði á mánudagsmorgun. Hægt verður að horfa á útsendinguna hér á Vísi og á sjónvarpsstöðinni okkar, Stöð 2 Vísi. 

Alls taka 555 af bestu ofurhlaupurum heimsins þátt, 15 í hverju landsliði. Hvert lið hleypur í sínu eigin landi og hefja öll lið keppni á nákvæmlega sama tíma. Þannig að á meðan íslensku keppendurnir hlaupa af stað á hádegi á laugardag fara þeir nýsjálensku af stað þegar klukkan er eitt eftir miðnætti í Nýja-Sjálandi, á sama tíma.

Mikill spenningur fyrir Íslandi

Fimmtán bestu íslensku hlaupararnir tryggðu sér sæti í landsliðinu út frá árangri í bakgarðshlaupunum sem haldin hafa verið hérlendis.

Elísabet Margeirsdóttir er liðsstjóri Íslendinga á mótinu.Vísir/Sigurjón

„Við getum ekki beðið eftir helginni og vonum að sem flestir hvetji okkar fólk í íslenska liðinu áfram. Liðið er gríðarlega sterkt og undirbúningur hefur gengið vel,“ segir Elísabet Margeirsdóttir, liðsstjóri íslenska liðsins. 

Hún hefur haft veg og vanda af skipulagningu mótsins og er í stöðugu sambandi við skipuleggjendur ytra.

„Þau eru ótrúlega spennt fyrir því að fá Ísland í keppnina og við erum í sérstöku uppáhaldi hjá þeim. Til að mynda eru þau eru með stóra útsendingu á YouTube á meðan keppninni stendur þar sem hvert land fyrir sig verður í fókus. Þar var lögð sérstök áhersla á að hafa íslensku umfjöllunina eina af þeim fyrstu þegar keppni hefst.“

Falleg braut í Elliðaárdal

Keppnisstaðurinn á Íslandi verður í Elliðaárdal og fer hlaupabrautin um góða stíga dalsins. Eins og sést á myndbandinu í spilaranum hér að neðan er brautin falleg.

Klippa: Svona er brautin í bak­garðs­hlaupinu í Elliða­ár­dal

Svona virkar keppnin

Hlaupinn verður 6,7 kílómetra hringur á hverjum klukkutíma í hverju landi. Allir hringir verða ræstir á heila tímanum og er mikilvægt að koma sér á ráslínu tímanlega áður en sá næsti hefst.

Markmið liðsins er að ná sem flestum samanlögðum fjölda hringja á meðan keppnin er enn í gangi. Númer hvers keppanda fer eftir árangri og munu þau einnig keppast um að sigra sinn númeraflokk. 

Þegar aðeins einn keppandi í íslenska liðinu er eftir og hefur lokið einum hring einn (sigurvegarinn) þá lýkur keppninni á Íslandi. Sigurvegari íslensku keppninnar vinnur sér inn þátttökurétt á Heimsmeistaramóti einstaklinga í bakgarðshlaupum 2023.

Íslensku keppendurnir í bakgarðshlaupinu.

Mari fremst Íslendinga

Mari Jaersk setti Íslandsmetið í vor þegar hún hljóp í 43 klukkustundir, alls 288 kílómetra. Því má búast við því að íslensku keppendurnir hlaupi allt fram á mánudagsmorgun. 

Hér að neðan má sjá lista yfir íslensku keppendurna í þeirri röð sem þeir tryggðu sér þátttökurétt.

  • Mari Jaersk
  • Þorleifur Þorleifsson
  • Flóki Halldórsson
  • Friðrik Benediktsson
  • Rúnar Sigurðsson
  • Sigurjón Ernir Sturluson
  • Birgir Sævarsson
  • Jón Gunnar Gunnarsson
  • Adam Komorowski
  • Hildur Aðalsteinsdóttir
  • Kolbrún Ósk Jónsdóttir
  • Kristján Skúli Skúlason
  • Rúna Rut Ragnarsdóttir
  • Marlena Radziszewska
  • Örvar Steingrímsson
  • Liðsstjóri: Elísabet Margeirsdóttir

Heimsmeistarinn hleypur til þriðjudags

Búist er við því að sigurvegarinn á heimsvísu hlaupi í þrjá sólarhringa, eða frá hádegi á laugardag og fram á hádegi á þriðjudag.

Hér að neðan má sjá kynningarmyndband fyrir keppnina og lista yfir þau lönd sem taka þátt.

Þessi lönd taka þátt

  • Austurríki
  • Ástralía
  • Belgía
  • Bandaríkin
  • Brasilía
  • Bretland
  • Danmörk
  • Ekvador
  • Finnland
  • Frakkland
  • Holland
  • Írland
  • Ísland
  • Ísrael
  • Ítalía
  • Indland
  • Japan
  • Kanada
  • Máritíus
  • Malasía
  • Malta
  • Marokkó
  • Mexíkó
  • Noregur
  • Nýja-Sjáland
  • Spánn
  • Suður-Afríka
  • Sviss
  • Svíþjóð
  • Slóvakía
  • Singapúr
  • Ungverjaland
  • Pakistan
  • Úkraína
  • Venesúela
  • Víetnam
  • Þýskaland

Tengdar fréttir

Illt alls staðar og vaknaði á gólfinu heima hjá sér

Bakgarðshlaup Náttúruhlaupa lauk í nótt þar sem hlaupakonan Mari Jaersk bar sigur úr býtum. Hún segist hafa verið mjög þreytt á tímabili en að það hafi einfaldlega ekki staðið til boða að gefast upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×