Innlent

Hestafólk uggandi yfir breytingum á umferðarlögum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hestafólk á Landsmótinu á Hellu síðastliðið sumar.
Hestafólk á Landsmótinu á Hellu síðastliðið sumar. Vísir/Hulda Margrét

Landssamband hestamannafélaga gerir alvarlegar athugasemdir fyrir hugaðar breytingar á umferðarlögum. Verði breytingarnar að veruleika verður heimil umferð gangandi fólks á reiðstígum.

Frumvarp innviðaráðherra til laga um breytingu á umferðarlögum hefur legið í Samráðsgátt undanfarnar tvær vikur. Umsagnarfrestur rann út í gær. Fjölmargar umsagnir má finna í gáttinni og er hestafólk uggandi.

„Ef reiðstígar, eins og þeir eru skilgreindir, yrðu einnig skilgreindir sem göngustígar, myndi það skapa mikla slysahættu,“ segir í umsögn Landssambands hestamannafélaga

Umferð gangandi fólks, hlaupandi, barnavagna, gönguskíðafólks og hundafólks fari illa saman með umferð hestafólks. Hestar og knapar séu á mismunandi aldri, með mismunandi reynslu og bregðist ólíkt við aðstæðum og aðsteðjandi hættum.

„Þetta myndi líka skapa mikla hættu fyrir gangandi vegfarendur, hesturinn er flóttadýr og ef hann fælist vegna gangandi vegfaranda er öryggi allra í hættu.

Einnig sé vert að benda á að viðhald og uppbygging reiðvega sé framkvæmd og kostuð af reiðvegafé hestamannafélaganna. Göngustígar séu kostaðir og þeim viðhaldið af sveitarfélögunum.

„Landssamband hestamannafélaga telur að ekki skuli breyta skilgreiningu á göngu-, hjóla- og reiðstígum frá því sem nú er og halda umferð hestamanna sem mest aðskildri frá annarri umferð útivistarfólks.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.