Ajax er eins og vanalega með hörkusterkt lið og eygði þess von að endurheimta toppsæti deildarinnar með sigri í kvöld en liðið missti toppsætið í hendur AZ Alkmaar þegar Ajax tapaði fyrir AZ í síðustu umferð.
Davy Klaasen kom Ajax yfir undir lok fyrri hálfleiks og leit allt út fyrir að heimaliðið myndi hafa öruggan sigur þar sem það hafði talsverða yfirburði.
Þegar rúmlega tíu mínútur lifðu leiks gerði Willum Þór sér hins vegar lítið fyrir og jafnaði leikinn fyrir Go Ahead Eagles en það var jafnframt eina marktilraun liðsins í leiknum.
Þrátt fyrir yfirburðina úti á velli tókst Ajax ekki að knýja fram sigurmark og lokatölur 1-1.