Sport

Handsprengju varpað að meistaranum í kvöld

Sindri Sverrisson skrifar
Vitor Charrua, Matthías Örn Friðriksson, Árni Ágúst Daníelsson og Hallgrímur Egilsson keppa um eitt laust sæti á úrslitakvöldinu.
Vitor Charrua, Matthías Örn Friðriksson, Árni Ágúst Daníelsson og Hallgrímur Egilsson keppa um eitt laust sæti á úrslitakvöldinu. Stöð 2 Sport

Þrír menn sem orðið hafa Íslandsmeistarar eru í hópi keppenda á öðru keppniskvöldi Úrvalsdeildarinnar í pílukasti í kvöld. Aðeins einn þeirra getur komist áfram á úrslitakvöldið í desember.

Sauðkrækingurinn Arnar Geir Hjartarson vann óvæntan sigur á fyrsta keppniskvöldinu í síðustu viku og komst upp úr riðli 1.

Í kvöld er svo röðin komin að þeim Hallgrími Egilssyni, Vitor Charrua, Árna Ágústi Daníelssyni og Matthíasi Erni Friðrikssyni, að keppa um eitt laust sæti á úrslitakvöldinu.

Þrír Íslandsmeistarar í riðlinum

Matthías er sigurstranglegastur en þessi fyrrverandi knattspyrnukappi úr Grindavík hefur orðið Íslandsmeistari í pílukasti þrjú síðustu ár í röð.

Sá síðasti á undan Matthíasi til að landa Íslandsmeistaratitlinum var hinn skeggprúði Vitor Charrua, sem kallaður er „Handsprengjan“ (e. The Grenade), og ljóst að Matthías mun þurfa að hafa fyrir hlutunum í kvöld.

Þriðji Íslandsmeistarinn í hópnum í kvöld er svo Hallgrímur Egilsson, eða Halli Egils, sem varð Íslandsmeistari árið 2016.

Róðurinn verður því þungur fyrir hinn 21 árs gamla Árna Ágúst, nema úr Reykjanesbæ, sem byrjaði að kasta pílu í byrjun þessa árs.

Keppniskvöldið í Úrvalsdeildinni í pílukasti hefst klukkan 20 í kvöld, í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×