Innlent

Dæmdur fyrir að valda höfuð­kúpu­broti við skemmti­stað

Atli Ísleifsson skrifar
Úr dómsal í Héraðsdómi Reykjaness.
Úr dómsal í Héraðsdómi Reykjaness. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt mann í þriggja mánaða fangelsi fyrir að hafa veist að og hrint manni fyrir utan skemmtistað í nóvember 2018 með þeim afleiðingum að maðurinn skall með hnakka í götuna og höfuðkúpubrotnaði.

Samkvæmt heimildum fréttastofu átti árásin sér stað í London í Bretlandi og voru bæði árásarmaðurinn og brotaþolinn íslenskir. Maðurinn var ákærður fyrir að stórfellda líkamsárás og segir að blætt hafi inn á heila brotaþola, auk þess að hann missti heyrn á hægra eyra og bragð- og lyktarskyn skertist.

Ákærði játaði sök í málinu og var hann dæmdur í þriggja mánaða fangelsi en fresta skal fullnustu refsingarinnar og mun hún niður falla, haldi maðurinn almennt skilorð í tvö ár.

Í ákæru var einnig tekin upp einkaréttarkrafa brotaþola en undir rekstri málsins var hún afturkölluð þar sem ákærði og brotaþoli höfðu náð samkomulagi um greiðslu miskabóta.

Ákærði hefur ekki áður orðið uppvís að refsiverðri háttsemi svo vitað sé. Í dómnum segir að brotið hafi ekki verið sérlega hættilegt í skilningi laga, en þegar virtar eru afleiðingar af háttseminni fyrir heilsu brotaþola sé hún réttilega heimfærð undir lagaákvæðið.

Ákærða var einnig gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, samtals um 1,1 milljón króna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×