Erlent

Kaþólikkar orðnir fleiri en mótmælendur á Norður-Írlandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Prúðbúnir hirðverðir ganga um götur nærri Hillsborough-kastala á Norður-Írlandi í tengslum við opinbera heimsókn Karls þriðja þangað í síðustu viku. Minnihluti Norður-Íra lítur nú á sig sem mótmælendur í fyrsta skipti.
Prúðbúnir hirðverðir ganga um götur nærri Hillsborough-kastala á Norður-Írlandi í tengslum við opinbera heimsókn Karls þriðja þangað í síðustu viku. Minnihluti Norður-Íra lítur nú á sig sem mótmælendur í fyrsta skipti. Vísir/EPA

Fleiri Norður-Írar telja sig nú kaþólikka en mótmælendur í fyrsta skipti samkvæmt nýbirtu manntali. Tölurnar eru taldar verða vatn á myllu þeirra sem berjast fyrir sameiningu Írlands.

Samkvæmt manntalinu telja 45,7% Norður-Íra sig kaþólikka eða segjast hafa alist upp í kaþólskri trú en 43,5% telja sig mótmælendur. Fyrir áratug töldu 48,4% sig mótmælendur en 45,1% kaþólikka.

Þá hefur Norður-Írum sem líta á sig sem Breta eingöngu fækkað. Nú telja 31,9% sig aðeins Breta, 29,1% telja sig Íra en 19,8% líta fyrst og fremst á sig sem Norður-Íra. Manntalið nú er það fyrsta sem var gert eftir að Bretar greiddu atkvæði með því að ganga úr Evrópusambandinu árið 2016.

Norður-Írland var stofnað árið 1921 þegar Írland hlaut sjálfstæði. Þar voru svokallaðir sambandssinnar sem vildu halda áfram til heyra Bretlandi í meirihluta, aðallega afkomendur breskra landnema af mótmælendatrú. Við stofnun voru tveir af hverjum þremur Norður-Írum mótmælendur en einn af hverjum þremur kaþólikki.

Lýðfræðingar hafa lengi spáð því að kaþólikkar yrðu fjölmennasti hópurinn á Norður-Írlandi. Fæðingartíðni er hærri á meðal þeirra og meðalaldur lægri en mótmælenda. Í manntalinu árið 2011 mældust mótmælendur í fyrsta skipti innan við helmingur þjóðarinnar þó að þeir væru enn fjölmennari en kaþólikkar, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Enda McClafferty, stjórnmálaskýrandi breska ríkisútvarpsins BBC á Norður-Írlandi, segir að þeir sem berjast fyrir því að Norður-Írland verði sameinað Írlandi muni lýsa niðurstöðum manntalsins sem vatnaskilum. Sambandssinnar muni aftur á móti benda á að vaxandi hlutfall kaþólikka líti á sig sem Norður-Íra sem kunni ágætlega við sig í sambandi við Bretland.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×