Innlent

Sleppt úr varð­haldi en sætir á­fram far­banni vegna dópsmygls

Atli Ísleifsson skrifar
Landsréttur úrskurðaði konuna í farbann, en héraðsdómur hafði áður úrskurðað konuna í gæsluvarðhald.
Landsréttur úrskurðaði konuna í farbann, en héraðsdómur hafði áður úrskurðað konuna í gæsluvarðhald. Vísir/Vilhelm

Landsréttur hefur úrskurðað konu til að sæta farbanni til 27. september næstkomandi eftir að hún gerði, í félagi við aðra konu, tilraun til að smygla amfetamíni með flugi til landsins um miðjan síðasta mánuð.

Héraðsdómur Reykjaness hafði áður úrskurðað konuna í gæsluvarðhald til 27. september. Landsréttur taldi hins vegar ekki rök til að láta konuna sæta áfram gæsluvarðhaldi og hefur henni því verið sleppt en mun áfram sæta farbanni.

Í úrskurði kemur fram að tollverðir á Keflavíkurflugvelli hafi stöðvað tvær konur sem voru að koma til landsins með flugi, en í leit í farangri þeirra hafi fundist samtals fjórar eins lítra vínflöskur. Við rannsókn kom svo í ljós að glæri vökvinn sem fannst í flöskunum reyndist vera amfetamín.

Við skýrslutöku sagði konan, sem nú hefur verið gert að sæta farbanni, að hin konan hafi látið sig fá flöskurnar og hélt hún að í þeim væri vín.

Farið var fram á gæsluvarðhald þar sem rannsaka þurfi aðdraganda ferðarinnar, tengsl kvennanna og aðra hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi. Magn efnanna þykir eindregið benda til þess að hin meintu fíkniefni hafi verið ætluð til sölu og dreifingar hér á landi.

Í úrskurðinum segir ennfremur að konan sé erlendur ríkisborgari og virðist ekki hafa nein raunveruleg tengsl við Ísland. Telur lögregla að eini tilgangur konunnar til að koma til Íslands hafi verið flytja efnin hingað til lands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×