Menning

Stærsta frétta­ljós­mynda­sýning í heimi opnuð í Kringlunni

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Sigurjón Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar, Kristinn Magnússon, formaður Blaðaljósmyndarafélags Íslands og Martha Echevarria, fulltrúi samtaka World Press Photo, við myndina sem valin var Fréttaljósmynd ársins.
Sigurjón Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar, Kristinn Magnússon, formaður Blaðaljósmyndarafélags Íslands og Martha Echevarria, fulltrúi samtaka World Press Photo, við myndina sem valin var Fréttaljósmynd ársins. Bent Marinósson

Stærsta fréttaljósmyndasamkeppni í heimi, World Press Photo, opnaði í dag í Kringlunni. Sýningin samanstendur af verðlaunaðri myndrænni blaðamennsku ársins 2021 auk stafrænna frásagna. World Press Photo hefur í mörg ár verið sýnd í Kringlunni en við hverja mynd er fróðlegur texti um myndefnið á íslensku og ensku.

 Ljósmyndin sem dómnefnd útnefndi sem Fréttaljósmynd ársins var tekin af kanadíska ljósmyndaranum Amber Bracken fyrir The New York Times og sjá má hér að neðan.

Fjöldagrafir með börnum frumbyggja í Kanada

Myndin sýnir kjóla hanga á krossum meðfram vegkanti, til að minnast barna sem létust í Kamloops Indian Residential skólanum. Stofnunin var heimavistarskóli fyrir börn frumbyggja, rekinn í þeim tilgangi að aðlaga þau að kanadísku samfélagi. Þann 19.júní 2021 fundust grafir með líkamsleifum allt að 215 barna við skólann í Bresku Kólumbíu. Heimavistarskólar hófu göngu sína á 19. öld en starfsemin var liður í þeirri stefnu að aðlaga frumbyggja úr ýmsum samfélögum að vestrænni menningu. 

Allt að 150.000 börn voru tekin með valdi af heimilum sínum og þeim bannað að tjá sig á eigin tungumáli. Oft urðu þessi börn fórnarlömb líkamlegrar og kynferðislegrar misnotkunar. Rannsóknir hafa sýnt að að minnsta kosti 4,100 börn létust í skólum af þessu tagi. Kamloops-skólinn varð sá stærsti en í maí 2021 fundust með notkun ratsjáa allt að 215 grafir barna í kringum svæðið. Það var staðfesting á munnlegum heimildum, segir í fréttatilkynningu um sýninguna.

65 þúsund ljósmyndir sendar inn

Að þessu sinni tóku þátt 4,066 atvinnuljósmyndarar frá 130 löndum og sendu inn 64,823 ljósmyndir. Dómnefndin veitti 44 ljósmyndurum verðlaun í 8 efnisflokkum og koma verðlaunahafar frá 24 löndum.

Mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, opnaði sýninguna formlega við hátíðlega athöfn. Hún er sett upp í göngugötu á 1. og 2.hæð Kringlunnar og er opin á afgreiðslutíma verslunarmiðstöðvarinnar og mun standa yfir til 28.september.

World Press Photo eru sjálfstæð samtök sem voru stofnuð í Hollandi árið 1955. Meginmarkmið þeirra er styðja við og kynna störf fréttaljósmyndara á alþjóðlegum vettvangi. Í gegnum tíðina hefur World Press Photo byggt upp sjálfstæðan vettvang fyrir fréttaljósmyndun og frjálsa upplýsingamiðlun. Til að gera markmið sín að veruleika stendur World Press Photo fyrir stærstu og veglegustu samkeppni heims á sviði fréttaljósmynda á hverju ári. Vinningsmyndunum er safnað saman í farandsýningu sem árlega nær til borga yfir 30 landa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×