Erlent

Bakar ís­lenskt rúg­brauð í bílnum sínum í Kali­forníu

Bjarki Sigurðsson skrifar
Lozos hafði áður prófað að baka rúgbrauð í ofni en vildi prófa nýja aðferð.
Lozos hafði áður prófað að baka rúgbrauð í ofni en vildi prófa nýja aðferð.

Eldfjallafræðingurinn Dr. Julian Lozoz bakar þessa stundina rúgbrauð í bíl sínum í San Fernando-dalnum í Kaliforníu-ríki. Hitinn í bílnum hans hefur náð allt að 86 gráðum.

Lozos hefur starfað mikið hér á landi vegna eldgosanna á Reykjanesskaga og fékk þá að smakka á rúgbrauði. Hann hafði áður reynt að baka hið ljúffenga íslenska rúgbrauð í ofni en vildi prófa að nýta sér annan orkugjafa.

Hann ákvað því að nýta sér þann hita sem myndast inni í bíl hans í Kaliforníu-ríki en hitastigið náði allt að 46 gráðum í gær þar að sögn Julian. Hann deildi baksturssögu sinni á Twitter í gærkvöldi.

Í verkið notaði Lozos pott sem heldur vel hita og setti plastfilmu yfir deigið til að passa upp á það að gufan færi ekki úr pottinum. Hann lagði bílnum sínum á sólríkum stað klukkan ellefu í gærmorgun en þá var tæplega 37 stiga hiti úti. Aðeins þrjátíu mínútum síðar var hitastigið orðið 40 gráður og á mælaborðinu, þar sem baksturinn fór fram, var hitinn 54 gráður.

Svona leit deigið út eftir rúmlega tveggja tíma bakstur.

Lozos ákvað að fylgjast með bakstrinum á tveggja tíma fresti en eftir tvo klukkutíma voru komnar loftbólur í deigið og það byrjað að rísa og flæða næstum því úr pottinum. Hitinn á mælaborðinu var þá kominn í 86,5 gráður. Tveimur tímum síðar var staðan sú sama.

Eftir þetta fór hitastigið að lækka og tveimur tímum síðar var mælaborðið í 71 gráðu. Hitastigið úti var þó enn yfir fjörutíu gráðum.

Klukkan hálf átta að kvöldi til var hitinn kominn niður í 35 gráður og stutt í að sólin færi að hverfa. Hann ákvað því að færa bílinn og hefja upphitun brauðsins aftur daginn eftir. Sjö klukkustunda tímamismunur er á Íslandi og í Kaliforníu og er klukkan tæplega fjögur að nóttu til þar þegar þetta er skrifað.

Hann segir að baksturinn taki á bilinu átta til 24 klukkustundir en í gær var deigið í bílnum í rúmar átta klukkustundir. Lozos segist þó stefna á að baka það í 24 tíma svo það sé alveg eins og þegar það er bakað ofan í jörðinni á jarðhitasvæðum hér á landi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.