Sport

Símon hélt áfram að bæta sig í lokagrein Íslendinga

Sindri Sverrisson skrifar
Símon Elías Statkevicius stóð sig vel á sínu fyrsta stórmóti.
Símon Elías Statkevicius stóð sig vel á sínu fyrsta stórmóti. mynd/SSÍ

Símon Elías Statkevicius batt enda á þátttöku Íslendinga á Evrópumótinu í sundi í Róm í dag þegar hann keppti í 50 metra skriðsundi.

Símon bætti sinn besta tíma í greininni og kom í bakkann á 23,27 sekúndum, og náði þar með þrisvar að bæta sinn besta tíma í þeim fjórum greinum sem hann keppti í á sínu fyrsta stórmóti í flokki fullorðinna.

Besti tími Símons í 50 metra skriðsundi var áður 23,49 sekúndur. Hann endaði í 55. sæti af 74 keppendum en hefði þurft að synda á 22,24 sekúndum til að komast áfram í undanúrslitin.

Fjögurra manna sveit Íslands hefur nú lokið keppni á EM en á mótinu kepptu auk Símons þau Anton Sveinn McKee, Snæfríður Sól Jórunnardóttir og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir. Árangur Antons í 200 metra bringusundi stóð upp úr en hann komst í úrslit og endaði í 6. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×