Sport

Arnór Smárason: Þetta var í fyrsta skipti sem ég spila á þessum velli í meistaraflokki

Sverrir Mar Smárason skrifar
Arnór Smárason hér á mynd með hinum skagamanninum í liði Vals, Tryggva Hrafi Haraldssyni.
Arnór Smárason hér á mynd með hinum skagamanninum í liði Vals, Tryggva Hrafi Haraldssyni. VÍSIR/BÁRA

Skagamaðurinn Arnór Smárason skoraði sigurmark Vals á Akranesi í kvöld í sínum fyrsta leik á ferlinum á Akranesvelli. Hann var ánægður með leikinn.

„Það er náttúrulega mikilvægast hjá okkur að fara með þrjú stigin heim. Mér fannst við stýra leiknum mestmegnis. Aron skorar flott mark og við komumst í 2-0. Mér fannst við missa þetta full mikið í óþarfa stress í restina. Skaginn voru góðir að pressa á okkur í lokin. Þeir eru með gott lið og ég veit að þeir munu ná í fullt af stigum það sem eftir lifir móts en þetta var frekar klaufalegt hjá okkur í lokin en þrjú stig í hús,“ sagði Arnór.

Arnór var dæmdur brotlegur í eigin vítateig á 66. mínútu en Frederik Schram, markvörður, varði frá Kaj Leo. Arnór fór svo upp völlinn og kom Val sjálfur í 2-0.

„Það var eitthvað klafs í teignum og boltinn skoppar á línunni. Ég reyni að sparka honum út en hitti helvíti vel í höfuðið á leikmanni skagans. Ég vona bara að hann sé í lagi, jú er ekki í lagi með hann? Það var klaufalegt en Schramarinn bjargaði mér þar. Nýkominn inná og þetta var skellur en fínt að enda þetta með marki skömmu síðar.“

„Það tekur á tilfinningarnar að skora á skaganum. Ég er Skagamaður, uppalinn hér og hérna er gott að vera. Gott að spila hérna. Þetta var í fyrsta skipti sem ég spila á þessum velli í meistaraflokki og það var geggjað að skora hérna. Skagahjartað lifir en ég er leikmaður Vals í dag og þú verður að vera fagmaður í svona momentum,“ sagði Arnór um vítið og markið.

Frá því að Ólafur Jóhannesson tók við hafa Valsmenn ekki tapað í þremur leikjum og unnið síðustu tvo.

„Það er góður andi í hópnum og svo eru úrslitin farið að detta aftur sem er rosalega jákvætt fyrir okkur. Tveir sigrar í röð og við höldum bara áfram. Við erum með frábæra leikmenn í þessu liði, það vita það allir, sjálfstraustið er að koma þannig að Valslestin er að byrja að rúlla,“ sagði Arnór að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×