Sport

NFL áfrýjar umdeildu banni Watsons

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Deshaun Watson á æfingu Cleveland Browns á dögunum.
Deshaun Watson á æfingu Cleveland Browns á dögunum. getty/Nick Cammett

NFL ætlar að áfrýja sex leikja banninu sem Deshaun Watson, leikstjórnandi Cleveland Browns, fékk. Rúmlega þrjátíu konur hafa sakað hann um að brjóta á sér kynferðislega.

Á mánudaginn var Watson dæmdur í sex leikja bann af Sue Robinson, fyrrverandi alríkisdómara sem NFL skipaði. 

Mörgum þótti refsingin heldur væg enda sökuðu fleiri en þrjátíu konur, sem allar starfa, eða störfuðu, sem nuddarar, sökuðu Watson um að brjóta kynferðislega gegn sér. 

Í síðasta mánuði greiddi Houston Texans, fyrrverandi félag Watsons, þrjátíu konum bætur og þá greiddi Watson sjálfur 23 af 24 konum sem hafa lögsótt hann sáttagreiðslur, með því skilyrði að þær létu kæru niður falla.

Samkvæmt skýrslu Robinsons vildi NFL banna Watson frá keppni á komandi tímabili, hið minnsta. Ef dómnum verður ekki breytt gæti Watson spilað með Browns þegar liðið sækir Baltimore Ravens heim 23. október.

Watson gerði risasamning við Browns í mars, að verðmæti 230 milljóna Bandaríkjadala. Hann spilaði ekkert með Texans á síðasta tímabili, meðan mál hans var til rannsóknar. Watson var samt á launum hjá félaginu.

Texans valdi Watson með tólfta valrétti í nýliðavali NFL 2017. Hann var hjá félaginu í fjögur ár áður en hann færði sig um set til Cleveland.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.