„Það vill nú svo til að ég var á heilmiklu ferðalagi um Grindavík í morgun og hitti þar fullt af fólki. Þar bar auðvitað á góma jarðskjálftarnir, framhaldið og allt þetta og það var eiginlega bara samhljómur hjá íbúum um að vonandi færi að gjósa sem fyrst, úr því þetta ætti að fara að koma. Þá myndu þessir jarðskjálftar hætta.“
Grindvíkingar bundu líka vonir við að eldgosið yrði á góðum stað.
„Þetta telst nú vera góður staður. Fjær Grindavík en áður og hætt að búnka þarna upp miklu hrauni. Þannig að ég held að það sé rólegt yfir íbúum bæjarins hvað þetta varðar.“
Fannar varaði við því að eldgosið væri stærra og hættulegra en gosið í fyrra og að fólk þyrfti að fara varlega og vera vel útbúið.
Sjá einnig: Töluvert stærra gos og virðist byrja af meiri krafti
Þegar rætt var við Fannar í fréttum Stöðvar 2 sagði hann nýbúið að senda út skilaboð um eldgosið og að þá hefðu verið um átta þúsund símar á svæðinu. Margir væru augljóslega í Grindavík en það væru samt mjög margir við eldstöðvarnar.
Fannar sagði erfiðara fyrir björgunarsveitir og viðbragðsaðila til að komast að eldstöðvunum, miðað við gosið í fyrra, og að aukinn viðbragðstími væri áhyggjuefni.
„Það er alveg víst að það verða meiðsli, og það mörg eins og gerðist síðast. Það þarf að fara mjög gætilega,“ sagði Fannar.
Varðandi mögulegan ávinning af eldgosinu og mögulegu flæði ferðamanna, sagði Fannar að líklega myndu væntanlega góðar tekjur rata í ríkissjóð. Grindavíkurbær bæri hins vegar mikinn kostnað af jarðhræringunum.
„Hann nemur tugum milljóna, þannig að við berum hitann og þungann af þessu öllu saman og landeigendur hérna líka,“ sagði Fannar. Hann sagði helsta áhyggjuefnið þó vera öryggi ferðamanna
„Og það er ekki hægt að tryggja án þess að fólk hlýði fyrirmælum yfirvalda og lögreglunnar og sé ekki að fara hérna illa búið. Ég sá hérna fjölskyldu leggja af stað áðan með svona tvö átta ára börn,“ sagði Fannar.