Erlent

Segja niður­stöður rann­sóknar á grameðlum rangar

Bjarki Sigurðsson skrifar
Beinagrind grameðlu á safni í Denkendorf í Þýskalandi.
Beinagrind grameðlu á safni í Denkendorf í Þýskalandi. Getty/Sven Hoppe

Rannsókn frá jarðvísindadeild Edinborgarháskóla sýnir fram á að þeir steingervingar sem hafa fundist af grameðlum komi ekki frá þremur tegundum eðlunnar líkt og greint var frá í tímaritinu Evolutionary Biology í mars á þessu ári. Steingervingarnir sem voru rannsakaðir komi vissulega frá misstórum dýrum en eðlurnar voru, rétt eins og við mannfólkið, til í fleiri stærðum og gerðum en einni.

„Grameðlan er enn hinn eini sanni konungur risaeðlanna,“ segir steingervingafræðingurinn Steve Brusatte í skýrslu rannsóknarinnar en hann er einn þeirra sem framkvæmdi hana. Rannsóknin var birt í gær, einnig í tímaritinu Evolutionary Biology.

Í rannsókninni eru sömu bein greind og notuð voru við rannsóknina í mars sem staðhæfði að grameðlan hafi átti sér tvær systurtegundir, Tyrannosaurus imperator og Tyrannosaurus regina. Þá notuðust vísindamenn einnig við gögn um 112 fuglategundir sem taldar eru vera beinir afkomendur risaeðla.

Niðurstaðan var sú að tegundirnar tvær hafi ekki verið önnur tegund en grameðlan sem við þekkjum öll, heldur einungis aðeins minni dýr.

Upphaflega rannsóknin var ansi umdeild meðal fræðimanna en Gregory Paul, einn þeirra sem framkvæmdi rannsóknina, var oft á tíðum ansi harðorður í garð þeirra sem efuðust verk hans og sakaði þá um „steingervingaáróður“.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×