Erlent

„Fólk er að búast við því versta“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Rauð viðvörun er í gildi fyrir fjölmennt svæði í Bretlandi á morgun.
Rauð viðvörun er í gildi fyrir fjölmennt svæði í Bretlandi á morgun. Sara Rut Fannarsdóttir

Sérfræðingar vara við mannfalli í sögulegri hitabylgju sem gengur yfir Bretland á morgun og gróðureldar í Evrópu valda áfram gríðarlegri eyðileggingu. Íslendingur í Lundúnum segir borgarbúa uggandi. Þeir búi sig undir það versta.

Fjórtán þúsund hafa nú þurft að yfirgefa heimili og dvalarstaði í suðvesturhluta Frakklands vegna hamfaraeldanna sem loga víðar í Evrópu. Á fjórða þúsund hafa flúið elda í grennd við Malaga á Spáni.

Eldarnir eru knúnir áfram af óhagstæðum vindum - og auðvitað sögulegri hitabylgju sem dregið hefur hundruð til dauða víða um álfuna.

Í Bretlandi tók þegar í dag gildi gulbrún viðvörun vegna ofsahita, sem nær yfir nær allan suðurhluta landsins. Allt England, Wales og hluti af Skotlandi eru svo undir gulbrúnni viðvörun á morgun. Rauð viðvörun tekur þá gildi í fyrsta sinn á fjölmennu svæði sem nær meðal annars til Lundúna, Birmingham, York og Manchester. Veðurfræðingar búast við því að hiti fari jafnvel upp í 41 stig og nái þannig yfir 40 í fyrsta sinn.

„Fólk er aðeins stressaðra núna heldur en til dæmis í þessari hitabylgju fyrir mánuði síðan. Þegar það fattar að þetta er orðið að einhverju heilsufarslegu vandamáli,“ segir Jónas Atli Gunnarsson, íbúi í Lundúnum.

Jónas Atli Gunnarsson býr í Lundúnum.

Eitt af því sem gerir hitabylgjuna sérstaklega hættulega í Bretlandi er skortur á innviðum til að takast á við hana. Fæstir eru til dæmis með loftkælingu á heimilum sínum.

„Mitt þar með talið og svo eru húsin byggð þannig að þau eru ekkert að hleypa hitanum út. Þau eru byggð til að halda inni hita. Þannig að það er oft heitara inni heldur en úti, jafnvel þegar hitastigið er svona hátt. Ég finn það sjálfur hér,“ segir Jónas.

Margir séu byrjaðir að gera ráðstafanir fyrir morgundaginn; hamstri kalda drykki og klakapoka.

„Sérfræðingarnir segja að það verði allavega áttatíu prósent líkur á að hitamet verði slegið á morgun, þannig að fólk er að búast við því versta.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×