Sport

Búast við nýju móts­meti á Lauga­veginum

Árni Sæberg skrifar
Frá rásmarkinu í morgun. Andrew Douglas, númer sex, vann mótið í fyrra.
Frá rásmarkinu í morgun. Andrew Douglas, númer sex, vann mótið í fyrra. Laugavegshlaupið

Skipuleggjendur Laugavegshlaupsins búast við því að fyrsti hlaupari í mark muni bæta mótsmetið. Til þess þarf að hlaupa 55 kílómetra á minna en þremur klukkustundum og 59 mínútum

Hið árlega Laugavegshlaup hófst í morgun þegar ríflega fimmhundruð hlauparar lögðu af stað frá Landmannalaugum. Árlega hleypur hópur fólks fimmtíu og fimm kílómetra yfir Laugaveginn á hálendi Íslands. Íþróttabandalag Reykjavíkur heldur Laugavegshlaupið en Silja Úlfarsdóttir upplýsingafulltrúi ÍBR, segir hlaupið hafa farið vel af stað þrátt fyrir slæma veðurspá.

„Það eru sem sagt 530 manns að hlaupa núna uppi á hálendinu. Það datt aðeins úr, bæði út af Covid og svo voru aðrir sem treystu sér ekki í veðrið, sem er svo ekki jafnslæmt og búist var við,“ segir hún.

Silja segir að búist sé við æsispennandi keppni. Þeir Andrew Douglas, sem vann hlaupið í fyrra, og Arnar Pétursson, einn fremsti hlaupari þjóðarinnar séu taldir líklegir til afreka.

„Andrew fór fyrstur í gegnum Hrafntinnusker, sem eru tíu kílómetrar, og Arnar Péturs bara skömmu eftir og það var sama með Álftavatn. Miðað við tímann sem þeir eru á stefnir í nýtt mótsmet,“ segir hún.

Þó eru það ekki bara karlarnir sem er spennandi að fylgjast með. „Það er svo mjög áhugavert að fylgjast með henni Andreu Kolbeinsdóttur en hún vann Lagavegshlaupið í fyrra, það var í fyrsta skipti sem hún hljóp hlaupið. Þá hljóp hún á undir fimm klukkstundum, fyrst kvenna til að gera það og okkur grunar nú að hún muni gera það aftur,“ segir Silja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×