Sport

Kristall Máni: Ég reyndar held að þetta sé ekki minn síðasti leikur

Sverrir Mar Smárason skrifar
Kristall Máni er líklega á förum frá Víkingi en þó ekki strax að eigin sögn. Hann hefur verið einn besti leikmaður Bestu deildarinnar síðastliðin tvö ár.
Kristall Máni er líklega á förum frá Víkingi en þó ekki strax að eigin sögn. Hann hefur verið einn besti leikmaður Bestu deildarinnar síðastliðin tvö ár. Vísir/Hulda Margrét

Víkingar unnu góðan 3-2 sigur á ÍA í Víkinni í dag. Kristall Máni, sem hefur verið frábær fyrir Víkinga í sumar, hvorki skoraði né lagði upp í þessum leik en átti þó góðan leik líkt og oftast, sérstaklega í upphafi leiks.

„Fyrstu 25 mínúturnar voru mjög góðar og síðan bara tók held ég smá þreyta við eða ég var allavega orðinn helvíti þreyttur. Svona er þetta bara, það er leikur á þriðjudaginn sem við verðum að klára og ég held við verðum með fulla orku þar. Það var óþarfi að fara í eitthvað „panic“. Við bara unnum með einu marki og sigldum þessu heim,“ sagði Kristall um leikinn.

Víkingar leika síðari leikinn í undankeppni Meistaradeildar Evrópu gegn Malmö hér í Víkinni á þriðjudaginn. Þar er Kristall í banni eftir að hafa fengið umrætt seinna gult spjald fyrir að „sussa“ á stuðningsmenn Malmö. Hann hefur einnig verið orðaður frá félaginu á næstu dögum en hann segir ekkert klárt í þeim málum.

„Ég hefði tekið þátt í leiknum en ég verð bara upp í stúku að styðja mína menn. Við verðum bara að sjá til hvað kemur út á næstunni. Ef eitthvað kemur á netið þá er það klappað og klárt,“ sagði Kristall fáorður um framtíðina.

Viðtalsmaður spurði hann þá hvort miklar líkur væri á því að hann myndi skrifa undir hjá Rosenborg í Noregi sagði Kristall,

„Bara ef allt stenst þá finnst mér líklegt að það fari í gegn.“

Kristall Máni segist ekki hafa leikið sinn síðasta leik fyrir Víking á heimavelli hamingjunnar.

„Ég reyndar held að þetta sé ekki minn síðasti leikur hér þannig ég klára þetta með marki og sigri þannig maður klárar þetta með stæl,“ sagaði Kristall að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×