Þegar Hoppið kom fram á sjónarsviðið fyrir örfáum árum sáu margir fyrir sér að þar væri kominn nýr erkióvinur Strætó. En það er ekki rétt hugsun, heldur vilja þessir samgöngumátar vera vinir. Samhæfingin er hafin; þegar má sjá hvar rafskútur leynast nærri stoppistöðvum á Strætó.is
Sæunn Ósk Unnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Hopp, segir að þar að auki telji hún að til standi að láta nærliggjandi Hopphjól birtast á skjám Strætó á Hlemmi.
„Það er náttúrulega gríðarlega mikilvægt, vegna þess að við vitum að fólk er byrjað að taka upp Hopp-appið og leita sér að skútu þegar það er í Strætó að koma, inn í höfuðborgina til dæmis. Þannig að það skiptir miklu máli að fá skúturnar inn í Strætó-appið, að sjálfsögðu,“ segir Sæunn.

Bæði Hopp og Strætó vilja að hægt sé að nota sömu tækni til að greiða fyrir heildarferðina.
„Hvort það verði inneign hjá Hopp eða hvort þetta leiði þig inn í Hopp-appið, þetta eru bara tækniútfærslur sem þurfa að eiga sér stað þegar samtalið byrjar. En það er ekkert sem stendur í vegi fyrir því að við förum að tala um þetta,“ segir Sæunn.
Jóhannes Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó segir í samtali við fréttastofu að nú þegar Klappið - nýtt greiðslukerfi Strætó - er komið í gagnið, sé stefnt að því að þróa lausn til að leyfa farþegum að skipuleggja alla ferðina á einum stað. Tæknin sé til, næsta skref er að hefja ferlið.
Þar koma líka önnur rafskútufyrirtæki inn í myndina, en Hopp er óneitanlega risi á markaðnum. Stofnað 2019 og starfsmennirnir orðnir um 50.
„Rafskúturnar sem eru að fara núna 6.000 ferðir á dag, þið getið ímyndað ykkur hversu mikilvægt þetta er í samgönguflórunni. Þannig að það að það séu ekki rafskútustæði fyrir utan hverja einustu strætóstoppistöð, það bara skil ég ekki,“ segir Sæunn.
Sagt var frá því að Borgarlínu seinkar. En Hopp er á fleygiferð; Hopphjólum er nú að fjölga úr 1000 í 3000 og næst á dagskrá er að hefja starfsemi í Árbæ og Grafarvogi.
