Innlent

Ís­lendingar slá alls konar met í ferða­lögum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar

Ís­lendingar eru að slá öll met í ferða­lögum til út­landa og í fjölda gisti­n­átta innan­lands. For­stjóri Icelandair telur að tafir á flug­völlum víða um heim vegna mann­eklu lagist ekki fyrr en í vetur.

Sumarið er komið og það er farið að hægjast á öllu sam­fé­laginu. Fólk er komið í sumar­frí og fáir á ferli um götur bæjarins. Það virðist sem svo að stór hluti Ís­lendinga sé kominn til út­landa og þeir sem ekki eru farnir eru lík­lega á leið þangað.

Þetta styðja tölur Ferða­mála­stofu.

Síðasti maí­mánuður var met­mánuður þegar kemur að brott­förum Ís­lendinga frá landinu. Og það eftir tvö verstu sumur í þeim efnum í manna minnum.

Og það sama virðist eiga við um júní­mánuð. Það sem af er mánuði eru brott­farir Ís­lendinga til út­landa um 70 þúsund, og allar líkur á að þær verði fleiri en árið 2018 þegar þær fóru upp í rúm 71 þúsund.

„Það er mjög mikil eftir­spurn á ís­lenska markaðnum og bara á öllum okkar marköðum sem er mjög á­nægju­legt eftir þetta langa Co­vid-á­stand. Og mikill ferða­þorsti á meðal Ís­lendinga,“ segir Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelandair.

En hvert fara Ís­lendingar?

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Play eru vin­sælasti á­fanga­staður Ís­lendinga Tenerife. Næst­vin­sælast er að fljúga til Ali­cante á Spáni, þá til Kaup­manna­hafnar, Bar­selóna og loks Lissabon.

Icelandair flýgur einnig mest með Ís­lendinga til Tenerife og Ali­cante. Nice líka mjög vin­sæll á­fanga­staður og borgar­ferðir til London og Parísar eru alltaf vin­sælar.

Tenerife og Alicante tróna á toppnum yfir vinsælustu áfangastaði Íslendinga.

Vanda­málið leysist lík­lega ekki fyrr en í vetur

Eftir lægðina í flug­geiranum í far­aldrinum hefur þó myndast al­þjóð­legt vanda­mál á flug­völlum heimsins.

„Truflanir eru mjög miklar á flug­völlum úti í heimi og það hefur á­hrif. En okkur hefur gengið á­gæt­lega að komast í gegn um þetta og okkar frá­bæra starfs­fólk er að vinna þrot­laust starf,“ segir Bogi.

Bogi Nils er ekki bjartsýnn á að hið alþjóðlega vandamál vegna manneklu á flugvöllum leysist fyrr en í vetur.vísir/egill

Skortur á starfs­fólki eftir far­aldurinn er helsta vanda­málið á flug­völlunum.

„Það hefur ekki gengið nógu vel alls staðar að ráða fólkið til baka og þetta fer mjög hratt af stað, mun hugsan­lega jafna sig eitt­hvað í vetur. En á­standið mun lagast og verða eðli­legt aftur. Það liggur alveg fyrir,“ segir Bogi.

Undar­leg fjölgun gisti­n­átta

En það er ekki nóg með að Ís­lendingar séu dug­legir að ferðast til út­landa. Þeir virðast einnig hafa verið að ferðast mjög mikið innan­lands ef marka má tölur hag­stofunnar um fjölda gisti­n­átta sem Ís­lendingar hafa keypt sér hjá ís­lenskum hótelum.

Síðustu fimm ár hafa þær verið í kring um 200 þúsund á fyrsta árs­fjórðungi. En í ár verður meira en tvö­földun á þessu og gisti­næturnar frá janúar og út apríl­mánuð voru rúm­lega 416 þúsund í ár.

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá Ferða­mála­stofu þótti þessi aukning svo ó­trú­leg að Hag­stofan hefur verið að fara yfir þær á ný. Þar finnst þó engin villa í út­reikningunum.

Kristófer Oli­vers­son, eig­andi Center hótela og for­maður Fé­lags fyrir­tækja í hótel­rekstri og gisti­þjónustu, segist finna vel fyrir aukningu á ís­lenskum gestum en þó ekki svo rosa­legri eins og Hag­stofan hefur reiknað út.

„Við finnum fyrir aukningu og við þökkum því nú bara að Ís­lendingar hafi lært að meta hótelin á Ís­landi núna í Co­vid, þeir séu farnir að þekkja þau. Hugsan­lega eru ein­hverjir með gjafa­bréf, sem þeir eru að keppast við að klára eða eitt­hvað slíkt. En jú, jú, við finnum fyrir veru­legri aukningu hjá Ís­lendingum,“ segir Kristófer.

Kristófer segir jafn gaman að kíkja á íslenskt hótel og á hótel á Tenerife.vísir/ívar

Hann er þó ekki bjart­sýnn á að þessi gríðar­legi fjöldi Ís­lendinga á ís­lenskum hótelum haldist í sumar.

„Væntan­lega dregur nú heldur úr þessu í sumar. Er ekki góður hluti af þjóðinni núna á Tene? En við væntum þess að þetta haldi bara næsta vetur, menn séu búnir að kynnast mögu­leikunum og upp­byggingunni. Það er ekkert síðra að skreppa á hótel hérna í Reykja­vík eða á Suður­landinu, Norðu­landinu eða Austur­landinu heldur en á Tene,“ segir Kristófer.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.