Innlent

Breytinga að vænta hjá gler­slípurum, hljóð­færa­smiðum og feld­skerum

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hljóðfærasmíði verður ekki löggilt iðngrein á Íslandi nái breytingarnar fram að ganga.
Hljóðfærasmíði verður ekki löggilt iðngrein á Íslandi nái breytingarnar fram að ganga. Feature China/Future Publishing via Getty Images)

Löggilding í iðngreinunum feldskurði, glerslípun og speglagerð, hljóðfærasmíði, myndskurði, málmsteypu, mótasmíði, leturgreftri, hattasaumi og kæli- og frystivélavirkjum gæti heyrt sögunni til á næstu mánuðum nái ný reglugerð fram að ganga.

Í samráðsgátt stjórnvalda liggur nú frammi tillaga um breytingu á reglugerð um löggiltar iðngreinar, þar sem lagt er til að fella niður löggildingu í níu iðngreinum og fella átta aðrar iðngreinar undir samkynja iðngreinar.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins kemur fram að rökstuðningurinn fyrir þessum breytingum sé á þá leið að greinarnar hafi tekið slíkum breytingum að forsendur séu ekki lengur til staðar fyrir löggildingu þeirra og að hún verði ekki rökstudd með vísan til almannahagsmuna.

Sumar iðngreinarnar ekki kenndar hér á landi um árabil

Í hinum níu iðngreinum sem taldar voru fram í upphafi fréttarinnar er ekki til námskrá og hafa þær ekki verið kenndar hér á landi í tuttugu ár eða lengur.

Til að mynda hefur ekkert sveinspróf verið tekið í hattasaumi á Íslandi frá árinu 1958.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ræddi tillöguna í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Þar sagði hún ýmsar ástæður vera fyrir þessum fyrirhuguðu breytingum.

Við erum að taka hér sautján iðngreinar þar sem eru kannski áratugir síðan síðast var gefið út sveinspróf, námið er ekki kennt á Íslandi og erlendir nemar, til dæmis ungt fólk sem kemur heim eftir nám erlendis, ekki er hægt að meta það vegna þess að þú þarft að meta gagnvart íslensku námi, sagði Áslaug Arna.

Hægt er að skila inn athugasemdum við tillöguna í samráðsgáttinni. Sagði Áslaug Arna að í framhaldinu verði farið yfir athugasemdirnar. 

„Í kjölfarið á þessu mun hefjast stærra samráð við iðnaðinn, með Samtökum iðnaðarins og annarra iðngreina um framtíð þeirra.“

Að auki falla átta löggildingar niður og sameinast öðrum.

Hingað til hafa klæðskurður karla og kvenna verið aðskildar greinar sem heyra undir yfirflokkinn klæðskurð. Þar sem námskrá býður aðeins upp á nám í alhliða klæðskurði, og sú grein reglulega kennd síðustu ár, er lagt til að greinarnar klæðskurður karla og klæðskurður kvenna sameinist í reglugerðinni undir heitinu klæðaskurður.

Skipa- og bátasmíð sameinast húsasmíði nái tillögurnar fram að ganga.Vísir/Vilhelm

Álíka fyrirkomulag er lagt til þegar kemur að skósmíðaiðn í hverri engin sveinspróf hafa nokkru sinni verið skráð en undirflokkarnir skósmíði annars vegar og skóviðgerðir hins vegar tilheyra. Því er sameining þessara flokka við yfirgreinina skósmíðaiðn lögð til.

Eitt sveinspróf skráð í skipa- og bátasmíði árið 2020

Í ljósi þeirrar almennu reglu sem áratugum saman hefur verið í gildi milli trésmiða og tréskipasmiða að einstaklingar með iðnréttindi í húsasmíði annars vegar og skipa- og bátasmíði hins vegar hafi í gegn um tíðina gengið óáreittir í störf hvors annars er lagt til að síðarnefnda greinin verði sameinuð húsasmíði og greinin þar með lögð niður sem starfsgrein. Þess má geta að eitt sveinspróf var skráð í skipa- og bátasmíði árið 2020 en þar til hafði slíkt ekki verið skráð síðan 1994.

Tuttugu ár eru síðan sveinspróf voru síðast skráð í stálskipasmíði og stálvirkjasmíði. Greinarnar eru ekki lengur kenndar sem sérgreinar heldur eru þær hluti af námi í stálsmíði. Er því lagt til að þær verði sameinaðar undir yfirgreininni stálsmíði.

Að lokum er lagt til að sérgreinarnar almenn ljósmyndun og persónuljósmyndun verði sameinaðar undir yfirheitinu ljósmyndun þar sem þær eru ekki lengur kenndar sem sérgreinar hér á landi. Samkvæmt námskrá er aðeins boðið upp á nám í ljósmyndun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.